Allt er á suðupunkti innan Sósíalistaflokks Íslands eftir að Karl Héðinn Kristjánsson, forseti ungra sósíalista, sagði sig úr kosningastjórn í mars. Þetta gerði Karl Héðinn til að mótmæla meintu ofríki Gunnars Smára Egilssonar, formanni framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins.
Síðan þá hafa tvær stríðandi fylkingar tekist á inni á umræðuhóp flokksins, Rauða þræðinum, á Facebook. Þar tilkynnti Gunnar Smári í dag að framkvæmdastjórn hafi nú ákveðið að takmarka virkni meðlima hópsins við eina færslu á dag og ein ummæli á klukkustund.
„Það var samþykkt á fundi framkvæmdastjórnar fyrir nokkrum vikum að hægja á því fólki sem hefur að mörgu leyti lagt undir sig þennan vettvang, sett hér inn marga statusa á dag og kommentað á mínútu fresti. Admin mun því setja þær skorður á fólk að það geti aðeins sett inn einn status á dag og eitt koment á hverri klukkustund. Þetta er regla sem gildir um alla. Fyrst er fólki settar þessar skorður í viku, en síðan lengur ef þurfa þykir. Þessar reglur eru settar til að kæla aðeins niður hitann sem hér kviknar á þráðum. Hugmyndin hefur alltaf verið sú, að þetta sé vettvangur fyrir umræðu um pólitík og samfélag. Þá fer ekki vel að fólk sé hrópandi og æst. Það er fráhrindandi fyrir þau sem vilja taka þátt.“
Svo virðist sem þessi nýja regla hafi frekar varpað olíu á eldinn heldur en lægt öldurnar.
„Mikið rosalega er þetta ólýðræðislegt,“ skrifar einn meðlimur. Annar, Kristján Héðinn Gíslason, sem er faðir Karls Héðins, segir: „Svona lítur ógnarstjórn og þöggun út, svo allir athugi.“
Gunnar Smári svarar gagnrýni Kristjáns Héðins: „Þetta er bara húsreglur, viðbrögð við kvörtunum yfir yfirgangi örfárra inni í þessum hópi, fólki sem hefur lítið taumhald á sjálfu sér. Það má vel vera að því standi ógn af minnstu kurteisisreglum, en þá verður svo bara að vera. Ég held að meginþorri þeirra sem hér kíkja inn sé feginn að hér heyrist fleiri raddir.“
Kristján Héðinn segir að þessi ákvörðun framkvæmdastjórnar sé óskiljanleg. Umræðan sem nú eigi að kæfa snúist um fjármál flokksins sem Gunnar Smári hefur mikið með að gera.
„Snýr að þér og utanumhaldi þínu vegna fjárreiða flokksins. Vorstjörnunni, Alþýðufélaginu og einkafyrirtæki þínu Samstöðinni. Yfirgang sumra? Finndu þessu stað og hættu að dylgja. Í hverju felst þessi yfirgangur og hvaða raddir viltu þagga?“
Guðmundur Hrafn Arngrímsson formaður Leigjendasamtakanna segir Kristjáni að það sé ráð að „vera ekki lengur að skemmta skrattanum með því að takast á um svona erfiðan ágreining fyrir allra augum.“
Kristján Héðinn tekur undir að það sé óheppilegt að eiga þessar deilur í opnum umræðuhóp en á sama tíma sé Gunnar Smári að nota Samstöðina til að „níða skóinn af þeim er risu upp gegn ofríki og andlegu ofbeldi Eigandans og núna er Eigandi Rauða þráðarins, GSE, að loka á gagnrýnendur með fáránlegum og einstaklega tortryggilegum aðgerðum. Það á að vera fyrir opnum tjöldum.“
Aðrir fagna þessum breytingum. „Mikið assgoti var maður orðinn leiður á „sumum“ hérna inni sem hreinlega yfirtóku alla umræðu með yfirgangi og frekju og héldu þessari síðu í gíslingu.“