Á 3. hæð hússins stendur svo til að hafa úrræði fyrir sex konur sem eru að reyna að koma undir sig fótunum eftir langvarandi heimilisleysi. Umsókn Reykjavíkurborgar um byggingarleyfi er til umsagnar í skipulagsgátt og af þeim umsögnum sem hafa borist virðist andstaðan vera töluverð.
Morgunblaðið fjallaði meðal annars um málið í blaði sínu í morgun.
Rannsóknarstofan Sameind er stærsti leigjandi að Ármúla 32 og mótmælir fyrirtækið áformunum harðlega. Bent er á að fyrirtækið hafi áður verið með aðstöðu í Domus Medica við Egilsgötu 3 Reykjavík.
„Í næsta nágrenni við Domus Medica var talsvert um ógæfufólk í neyslu sem kom inn í húsnæði Domus Medica til að nýta sér salernin þar og mátti oft sjá nálar á gólfum og blóð ásamt saur á veggjum salerna. Þegar starfsfólk kom á morgnana í vinnu voru gjarnan tól til eiturlyfjaneyslu við starfsmannainnganginn. Þjófnaður var jafnframt viðvarðandi í Domus Medica og var starfsfólki Sameindar oft sýnd ógnandi hegðun af heimilislausu fólki og var lögregla oft kölluð til að fjarlægja þessa einstaklinga. Mikil óánægja var með þetta ástand á meðal rekstraraðila og starfsfólks Domus Medica og var þetta ein af helstu ástæðum þess að læknar fluttu starfsemi sína úr Domus Medica á sínum tíma,“ segir meðal annars í umsögninni.
Þá birtist umsögn frá fulltrúa Smábitans sem er í sama húsnæði en í henni er því hótað að farið verði í skaðabótamál við borgina verði viðskiptavinir fyrir truflun.
„Ef truflun og óþægindi skapast víð komu skjólstæðinga ykkar gagnvart rekstri Smábitans álítum við svo að Reykjavíkurborg bera alla ábyrgð á því. Viðskiptavinir Smábitans er fólk úr nærliggjandi hverfi og fastir kúnnar lengra komnir að. Ef einhver truflun verður fyrir viðskiptavini okkar munum við fara fram á skaðabætur frá Reykjavíkurborg. Að sjálfsögðu eru skjólstæðingar ykkar velkomnir að versla en þar sem dyrum er lokað milli 10.00 og 17.00 á þjónustu við þá áskiljum við okkur rétt til þess að banna daglanga setu eða veru skjólstæðinga ykkar inni á staðnum enda ber aðstaðan ekki slíka þjónustu,“ segir í umsögninni.