fbpx
Föstudagur 04.apríl 2025
Fréttir

Óvissa bíður íslenskrar fjölskyldu eftir 16 mánuði í Þýskalandi – „Algjörlega búið að snúa þessu á haus“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 3. apríl 2025 10:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það að við séum með þrjú ung börn og þar af eitt barn sem enn ætti að vera í ungbarnavernd, virðist bara nákvæmlega engu máli skipta,“ segir Hrefna Sif Jónsdóttir, þriggja barna móðir og framkvæmdastjóri Tixly, í aðsendri grein á Vísi í morgun.

Grein Hrefnu er áhugaverð en þar lýsir hún reynslu fjölskyldu sinnar af því að eiga við Sjúkratryggingar Íslands. Fjölskyldan; Hrefna, eiginmaður hennar og þrjú börn, flutti til Þýskalands í október 2023 og svo aftur til Íslands í janúar á þessu ári.

Var tilgangur flutningsins meðal annars að opna starfsemi Tixly í nýju landi.

Tryggðu hjá einkaaðila

Hrefna bendir á að fram að flutningi fjölskyldunnar út hafi þau borgað sína skatta og skyldur hér á landi og segir Hrefna sjálf að ekki hafi farið mikið fyrir fjölskyldunni í kerfinu.

„Í Þýskalandi var hagkvæmara fyrir okkur að sjúkratryggja okkur hjá einkaaðila heldur en opinberum aðila og því vorum við ekki í þýska almannatryggingakerfinu. Ekki óraði okkur fyrir því að sú ákvörðun myndi hafa þau áhrif að þegar heim væri komið aftur þyrftum við að bíða í sex mánuði eftir að verða aftur sjúkratryggð í okkar heimalandi. Enda fengum við þær upplýsingar áður en við fluttumst út að við þyrftum engar áhyggjur að hafa af þessu, við yrðum sjúkratryggð um leið og við myndum skrá okkur aftur inn í landið, það voru þær upplýsingar sem við fengum frá Sjúkratryggingum Íslands.“

Segir Hrefna að hringt hafi verið í Sjúkratryggingar Íslands áður en flutt var út til að kanna hvort gera þyrfti einhverjar sérstakar ráðstafanir. Segir hún að þar hafi þeim verið tjáð að svo væri ekki.

Kom þeim í opna skjöldu

„Þýska skipulagssemin náði að einhverju leiti að smitast í okkur á meðan dvölinni stóð og 29. nóvember 2024 kl 09:57 hringjum við aftur í Sjúkratryggingar Íslands til þess að kanna hvað skyldi gera svo við yrðum sjúkratryggð þegar við kæmum heim. Enda þá orðið ljóst að það færi að styttast í heimför. Svörin voru eins og áður, við þyrftum engar áhyggjur að hafa af málinu, við yrðum sjúkratryggð um leið og við skráðum okkur inn í landið. Það kom okkur því algjörlega í opna skjöldu þegar niðurstaða Sjúkratrygginga Íslands lá fyrir, varðandi það að við yrðum tryggð strax við heimkomu, svarið var „synjun“. Við hjónin erum bæði íslenskir ríkisborgarar og höfum alla tíð verið búsett og greitt okkar skatta og skyldur á Íslandi, að undanskildum þeim nýliðnu 16 mánuðum þar sem við vorum í Þýskalandi.“

Hrefna tekur fram að tilgangur ferðarinnar hafi verið að opna starfsemi Tixly, íslensks hugbúnaðarfyrirtækis, í nýju landi og þar með auka tekjur og greidda skatta íslenska móðurfélagsins. Segir hún að í lögum um sjúkratryggingar sé heimilt að veita undanþágu vegna slíkra aðstæðna, en það virðist ekki duga til. Vísar hún í stefnu Sjúkratrygginga þar sem segir:

„Hjarta Sjúkratrygginga felst í þjónustunni sem við bjóðum og léttir fólki lífið. Þjónusta okkar knýr gangverk heilbrigðiskerfisins. Við sinnum ekki einungis skyldum okkar, heldur leitumst við að skilja aðstæður þeirra sem við mætum, af alúð og skilningi á þörfum ólíkra hópa.“

„Virðist bara nákvæmlega engu máli skipta“

Eðli málsins samkvæmt er Hrefna ósátt við stöðu mála.

„Það virðist því miður algjörlega búið að snúa þessu á haus. Í staðinn fyrir að Sjúkratryggingar Íslands séu til í þessu landi til að þjónusta íbúana, erum við hjónin núna til í landinu til að „þjónusta“ eða berjast við Sjúkratryggingar Íslands. Eftir endalausar bréfaskriftir, ótal árangurslausar tilraunir í síma og nú nýjast kærumeðferð hjá úrskurðarnefnd velferðarmála erum við fjölskyldan ósjúkratryggð á Íslandi, höfum verið það síðustu 2 mánuði og verðum það eitthvað áfram. Það að við séum með þrjú ung börn og þar af eitt barn sem enn ætti að vera í ungbarnavernd, virðist bara nákvæmlega engu máli skipta.“

Grein sína endar Hrefna á þessum orðum:

„Ég get ekki annað en velt þeirri spurningu fyrir mér; fyrir hverja er Sjúkratryggingar Íslands ef ekki fyrir 5 manna íslenska fjölskyldu sem alla sína tíð hefur búið á Íslandi en flyst erlendis tímabundið í 16 mánuði með það eina markmið að fara í útrás með íslenskt fyrirtæki og auka skattgreiðslur til Íslands?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Borgfirðingar vilja losna við gamla heiti staðarins – Þessum sjö þorpum tókst það

Borgfirðingar vilja losna við gamla heiti staðarins – Þessum sjö þorpum tókst það
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Reykjavíkurborg braut á fatlaðri konu – Látin bíða svara í nærri áratug

Reykjavíkurborg braut á fatlaðri konu – Látin bíða svara í nærri áratug
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Leggjast gegn dýrafrumvarpi Ingu Sæland – Ofnæmisvakar geti borist á milli íbúða

Leggjast gegn dýrafrumvarpi Ingu Sæland – Ofnæmisvakar geti borist á milli íbúða
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Heiðar um tolla Trumps – „Þetta er afskaplega skammsýnt“

Heiðar um tolla Trumps – „Þetta er afskaplega skammsýnt“