Á fundi heimastjórnar Borgarfjarðar eystri í dag var rætt um nafngift þéttbýlisins á staðnum. Er það stundum kallað Borgarfjörður eystri en stundum Bakkagerði, sem er eldra heiti.
Árið 1968 var fjallað um það í Hagtíðindum, sem og í Morgunblaðinu, að heiti þorpsins hefði verið breytt úr Bakkagerði í Borgarfjörð eystri. Á sama tíma var heitum nokkurra annarra þorpa breytt, það er Tunguþorpi í Tálknafjörð, Grafarnesi í Grundarfjörð, Kirkjubólsþorpi í Stöðvarfjörð, Þverhamarsþorpi í Breiðdalsvík, Höfn í Bakkafjörð, Búðum í Fáskrúðsfjörð og Búðareyri í Reyðarfjörð.
Þessi gömlu heiti virka framandi í eyrum flestra en einhverra hluta vegna hefur heitið Bakkagerði enn þá loðað við Borgarfjörð eystri. Heimastjórnin bendir til dæmis á að í upplýsingagrunnum Landmælinga Íslands komi heitið Bakkagerði enn víða fyrir. Hafi þetta valdið því ýmist sé talað um Borgarfjörð eystri eða Bakkagerði í rituðu og töluðu máli.
Vegna þessa hefur starfsmanni heimastjórnarinnar verið falið að óska eftir umsögn Örnefnanefndar um mögulega nafnabreytingu þar sem eingöngu verði notast við heitið Borgarfjörður eystra.