fbpx
Föstudagur 04.apríl 2025
Fréttir

Vilja kanna jarðgangagerð í Reykjavík

Jakob Snævar Ólafsson
Miðvikudaginn 2. apríl 2025 14:30

Myndin tengist fréttinni ekki beint

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að leitað yrði samstarfs við Vegagerðina um upphaf rannsókna á möguleikum til frekari jarðgangagerðar í Reykjavík var felld á fundi borgarstjórnar í gær.

Í tillögunni var einnig kveðið á um að fjölbreyttir möguleikar yrðu kannaðir en sérstaklega yrði litið til fjölfarinna þjóðvega í þéttbýli sem skeri sundur íbúðahverfi. Samhliða yrði umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar falið að greina tækifæri til að skapa mannvænna umhverfi á yfirborði, þar sem stofnvegir hafi verið færðir neðanjarðar.

Með tillögunni fylgdi greinargerð þar sem m.a. er gerð grein fyrir þeim fjárhagslega ábata sem ná mætti fram með því að draga úr umferðartöfum og vísað þar í áætlun Samtaka iðnaðarins frá 2019 um að á fimm árum mætti ná fram 80 milljarða króna ábata með því að draga úr umferðartöfum um 15 prósent. Segir í greinargerðinni að síðan þá hafi umferðartafir aukist árlega. Minnt er á að með uppfærðum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins hafi verið ákveðið að stíga fyrsta skrefið í jarðgangagerð í Reykjavík, með því að setja Miklubraut í göng. Sömuleiðis er minnt á að áður en langt um líði verði jafnframt tekin afstaða til þess hvort Sundabraut skuli leggja í brú eða göng.

Vilji

Segir enn fremur í greinargerðinni að nú megi ljóst vera að aukinn vilji hafi skapast til þess að leggja stofnvegi innan höfuðborgarsvæðisins í jarðgöng. Með slíkum lausnum megi greiða verulega fyrir umferð neðanjarðar, en tryggja rólegri umferð ofanjarðar, pláss fyrir virka ferðamáta og mannvænna umhverfi fyrir fólk.

Segja Sjálfstæðismenn að heppilegast væri að jarðgangagerðin yrði sett í einkaframkvæmd og vísa þar til gerðar Hvalfjarðarganga sem fordæmis.

Í greinargerðinni eru færð margvísleg rök fyrir kostum þess að koma fleiri stofnvegum fyrir í jarðgöngum. Meðal annars þau að það  myndi bæta landnýtingu og minnka viðhaldsþörf. Öflugri samgöngur og styttri ferðatími geti jafnframt leitt af sér gríðarlegan efnahagslegan ávinning, styrkt atvinnulíf og stutt við verðmætasköpun.

Gerð er grein fyrir vexti umferðar á höfuðborgarsvæðinu. Fram kemur að milli áranna 2016 og 2024 hafði íbúum á höfuðborgarsvæðinu fjölgað um 34 þúsund og skráðum bílum um 29 þúsund. Að jafnaði hafi því um 90 íbúar og 80 bílar bæst við umferðina í viku hverri. Á næstu 15 árum sé gert ráð fyrir að íbúum höfuðborgarsvæðisins fjölgi um 75.000, en miðað við þróunina frá árinu 2016 geti það þýtt fjölgun bifreiða á svæðinu um tæplega 64.000. Ljóst sé að jafnvel þó björtustu spár um notkun Borgarlínu verði að veruleika, verði bifreiðin áfram sá ferðamáti sem flestir notist við. Draga mætti því verulega úr umferðartöfum og tryggja rólegri umferð ofanjarðar.

Metnaður

Tillagan var felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa meirihlutans en 11 borgarfulltrúar minnihlutans samþykktu hana. Í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins er þetta harmað:

„Það eru vonbrigði að meirihluti borgarstjórnar hafi hvorki vilja né metnað til að leita leiða til að leysa úr verstu umferðarteppum borgarinnar, gera borgarlandið mannvænna, bæta hljóðvist og minnka svifryk.“

Segir að lokum í bókuninni:

„Þetta vill meirihluti vinstri flokkanna ekki skoða heldur hjakkast áfram í hjólförum dugleysis og verkstols.“

Í bókun borgarfulltrúa Framsóknarflokksins er hins vegar lögð áhersla á að eitt stærsta hagsmunamál borgarbúa þegar komi að gerð jarðganga séu Miklubrautargöng sem séu nú þegar hluti af samgöngusáttmálanum og enn sé unnið að útfærslu Sundabrautar og mikilvægt sé að halda valkosti um jarðgöng þar opnum. Samtal við Vegagerðina um aðrar framkvæmdir megi hins vegar ekki riðla þessum áformum enda hafi verið sýnt fram á að þær tryggi best betra flæði umferðar.

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Leggjast gegn dýrafrumvarpi Ingu Sæland – Ofnæmisvakar geti borist á milli íbúða

Leggjast gegn dýrafrumvarpi Ingu Sæland – Ofnæmisvakar geti borist á milli íbúða
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Heiðar um tolla Trumps – „Þetta er afskaplega skammsýnt“

Heiðar um tolla Trumps – „Þetta er afskaplega skammsýnt“
Fréttir
Í gær

Margrét segir að sér gefist kostur á að afgreiða meiðyrðamál Barböru gegn sér með afsökunarbeiðni og spyr FB-vini sína ráða

Margrét segir að sér gefist kostur á að afgreiða meiðyrðamál Barböru gegn sér með afsökunarbeiðni og spyr FB-vini sína ráða
Fréttir
Í gær

Reykjavík þarf að borga konu sem rekin var úr starfi eina milljón króna í bætur

Reykjavík þarf að borga konu sem rekin var úr starfi eina milljón króna í bætur
Fréttir
Í gær

Leigubílaharkari kúgaði fé út úr fjölskyldu – „Daginn eftir var bankað upp á hjá honum og þar voru tveir menn að rukka“

Leigubílaharkari kúgaði fé út úr fjölskyldu – „Daginn eftir var bankað upp á hjá honum og þar voru tveir menn að rukka“
Fréttir
Í gær

Mótmæla frumvarpi um rekstur líkhúsa – Sé ekkert annað en skattlagning á dánarbú

Mótmæla frumvarpi um rekstur líkhúsa – Sé ekkert annað en skattlagning á dánarbú