Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tók þátt í alþjóðlegri lögregluaðgerð á dögunum þar sem tekin var niður vefsíða, Kidflix, en á henni var að finna barnaníðsefni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
„Aðgerðin náði til á fjórða tug landa, en fyrir henni fóru lögregluyfirvöld í Bæjaralandi í Þýskalandi með fulltingi Europol,“ segir í tilkynningunni og kemur fram að tveir menn á höfuðborgarsvæðinu voru handteknir í aðgerðinni, húsleit var gerð á heimilum þeirra og lagt hald á búnað í þágu rannsóknarinnar.
Tæplega tvær milljónir notenda höfðu skráð sig inn á barnaníðssíðuna undanfarin þrjú ár, en á henni var að finna um 72 þúsund myndbönd þegar lögreglan lét til skarar skríða og lokaði síðunni.
Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Europol: Global crackdown on Kidflix, a major child sexual exploitation platform with almost two million users | Europol