fbpx
Fimmtudagur 03.apríl 2025
Fréttir

Þóttist ekki hafa keyrt bílinn og fékk mánaðarlangt fangelsi

Jakob Snævar Ólafsson
Miðvikudaginn 2. apríl 2025 18:30

Lögreglan hafði afskipti af manninum á þessu bílastæði í Kópavogi. Bifreiðarnar á myndinni tengjast efni fréttarinnar ekki. Mynd: Skjáskot/Já.is.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Maður hefur verið dæmdur í 30 daga fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að hafa ekið bifreið sviptur ökuréttindum. Lýsti maðurinn sig saklausan af ákærunni og hélt því fram að vinur hans hefði keyrt bifreiðina í umrætt sinn en vinurinn, sem tók undir framburð mannsins, er ekki með ökuréttindi. Tók dómurinn framburð þeirra ekki trúanlegan og sagði þá ásamt vinkonu þeirra, sem á umrædda bifreið, hafa komið sér saman um uppspuna til að koma manninum undan sök.

Málið kom upp í desember 2023 en þá höfðu tvær lögreglukonur afskipti af manninum vegna gruns um að hann hefði ekið bifreiðinni án ökuréttinda við verslun Nettó í Engihjalla í Kópavogi. Þegar þær tóku skýrslu af manninum á vettvangi neitaði hann sök.

Fyrir dómi sagði maðurinn að hann og vinur hans hefðu fengið bifreiðina lánaða. Vinurinn hafi skutlað honum í klippingu og síðan í Nettó en þá hafi vinkona þeirra, eigandi bifreiðarinnar, hringt og spurt hvort vinurinn væri með bílpróf. Þegar því hafi verið svarað neitandi hafi hún krafist þess að þeir myndu stöðva bifreiðina þegar í stað.

Skipt um sæti

Maðurinn sagði fyrir dómi að þeir vinirnir hefðu tekið eftir lögreglubifreið þegar hefðu komið inn á bílastæðin við verslunina. Hann hafi þá hoppað í aftursætið en vinurinn fært sig úr ökumannsætinu í farþegasætið. Þeir hafi óttast að lögreglan myndi taka vininn fyrir að aka próflaus. Lögreglubifreiðinni hafi hins vegar verið ekið á brott og hann þá farið inn í verslunina en vinurinn beðið í bifreiðinni á meðan. Þegar hann hafi komið aftur hafi hann sest í ökumannssætið til að spjalla við vin sin sem hafi tjáð honum að eigandi bifreiðarinnar hefði í millitíðinni komið og sótt bíllyklana en síðan haldið í nærliggjandi fjölbýlishús til að skoða ljósakrónu sem hún hefði séð auglýsta á sölusíðunni bland.is.

Nokkru síðar hafi lögreglan komið aftur og þá beðið hann um að framvísa ökuskírteini en hann hafi sagst ekki vera með slíkt enda ekki með bílpróf og ekki hafa verið að aka bifreiðinni. Lögreglukonurnar hafi ekki tekið hann trúanlegan.

Fyrir dómi sagði önnur lögreglukonan að henni og samtarfskonu hennar hefði þótt það grunsamlegt að bifreiðin hefði verið kyrrstæð við verslunina en ekki verið lagt í stæði. Sagðist hún hafa þekkt manninn í bifreiðinni en þau kæmu frá sama bæjarfélagi. Þær hefðu flett nafni hans upp og þá komið í ljós að hann hefði áður verið sviptur ökuréttindum. Þær hefðu snúið við og þá séð bifreiðinni ekið í stæði. Þær hefðu aldrei misst sjónar á henni og ekki orðið varar við neina óeðlilega hreyfingu inn í henni. Samstarfskona hennar hafi strax farið að bifreiðinni og séð manninn stíga úr bifreiðinni þar sem sæti ökumanns var. Lögreglukonan sagðist enn fremur hafa séð manninn aka bifreiðinni í stæðið.

Var framburður lögreglukvennanna samhljóða og sögðust þær ekki kannast við þá lýsingu mannsins að bifreiðin hefði verið kyrrstæð í töluverðan tíma áður en þær hafi komið aftur á vettvang og sagt hann hafa ekið bifreiðinni.

Vinurinn

Umræddur vinur mannsins kom fyrir dóminn og sagðist hafa ekið bifreiðinni. Hann hafi lagt bílnum við verslunina og maðurinn farið út úr bifreiðinni og inn í verslunina en hann á meðan fært sig yfir í farþegasætið og í millitíðinni hafi eigandinn komið og tekið lyklana. Þegar maðurinn hafi komið aftur hafi hann sest í ökumannssætið en þá hafi lögreglan komið og tekið því þannig að maðurinn hafi verið að aka bifreiðinni.

Konan sem á bifreiðina kom fyrir dóminn. Hún sagðist vita að maðurinn væri ekki með ökuréttindi en hefði talið að vinurinn væri með þau þegar hún lánaði þeim bifreiðina. Hún hefði hringt í þá og komist að því á meðan samtalinu stóð að vinurinn væri ekki með ökuréttindi. Hún hefði skipað þeim að stöðva og haldið á vettvang með leigubíl. Þegar hún hafi komið á staðinn hafi vinurinn verið einn í bílnum og setið í farþegasætinu en hún tekið af honum lyklana og haldið síðan í nærliggjandi fjölbýlishús til að skoða áðurnefnda ljósakrónu. Hún hefði ekki séð lögregluna hafa afskipti af manninum.

Uppspuninn

Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur segir að ósamræmi sé í framburði mannsins og vinarins. Maðurinn hafi sagst hafa hoppað úr farþegasætinu í aftursætið um leið og þeir hefðu lagt bifreiðinni í stæði við verslunina og vinurinn strax fært sig yfir í farþegasætið. Vinurinn hafi hins vegar sagst hafa fært sig yfir í farþegasætið eftir að maðurinn var farinn inn í verslunina.

Segir dómurinn að framburður konunnar um að hún hafi einmitt verið í nágrenninu að skoða ljósakrónu á meðan lögreglan hafði afskipti af manninum sé ekki trúverðugur og meta verði framburð hennar og vinarins í ljósi tengsla þeirra við manninn. Segir um framburði þremenninganna í dómnum:

„Framburður ákærða og þessara vitna ber að mati dómsins þess öll merki að vera uppspuni sem þau hafi komið sér saman um í þeim tilgangi að koma ákærða undan sök.“

Er það sömuleiðis niðurstaða dómsins að framburður lögreglukvennanna hafi verið trúverðugur.

Maðurinn var því sakfelldur fyrir að hafa ekið bifreiðinni sviptur ökuréttindum og í ljósi þess að þetta er í þriðja sinn sem maðurinn gerist sekur um það þykir Héraðsdómi Reykjavíkur við hæfi að dæma hann í 30 daga óskilorðsbundið fangelsi.

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Þorvaldur: Gætum átt von á óvæntum atburðum – „Það kæmi mér ekki á óvart“

Þorvaldur: Gætum átt von á óvæntum atburðum – „Það kæmi mér ekki á óvart“
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Staðan á Reykjanesskaga: 80-120 skjálftar mælast á hverri klukkustund

Staðan á Reykjanesskaga: 80-120 skjálftar mælast á hverri klukkustund
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Trump tilkynnir um tolla á innflutning – „Dagur frelsunar“

Trump tilkynnir um tolla á innflutning – „Dagur frelsunar“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Jónas Már úthúðar Sjálfstæðisflokknum og Morgunblaðinu – Alvöru blaðamenn hljóti að íhuga stöðu sína

Jónas Már úthúðar Sjálfstæðisflokknum og Morgunblaðinu – Alvöru blaðamenn hljóti að íhuga stöðu sína
Fréttir
Í gær

Stefán Einar svarar fyrir sig: „Fólk þarf ekki að mæta og það þarf ekki að hlusta”

Stefán Einar svarar fyrir sig: „Fólk þarf ekki að mæta og það þarf ekki að hlusta”
Fréttir
Í gær

Fá ekki greitt fyrir óunna yfirvinnu úr þrotabúi Skagans 3X

Fá ekki greitt fyrir óunna yfirvinnu úr þrotabúi Skagans 3X