Þegar Jensen stýrði dönsku leyniþjónustunni var enginn efi í hans huga um að hægt væri að treysta Bandaríkjamönnum. Háleynilegar upplýsingar voru í öruggum höndum vestan megin við Atlantshafið.
En margt hefur breyst síðan þá. Jensen er ekki lengur yfirmaður hjá dönsku leyniþjónustunni og Donald Trump er með lyklavöldin í Hvíta húsinu og hefur sér til halds og trausts ríkisstjórn sauðtryggra aðdáenda sinna.
„Ef ég væri yfirmaður dönsku leyniþjónustunnar í dag, þá myndi ég hafa ákveðnar efasemdir um hvort það sem ég sendi til Bandaríkjanna yrði áfram leynilegt. Það er vegna þeirrar stjórnar sem nú situr í Hvíta húsinu,“ sagði hann í samtali við Ekstra Bladet og bætti við að hann myndi ekki deila öllum upplýsingum með Bandaríkjamönnum í dag. Það hefði hann gert áður fyrr, nema það væri ólöglegt, en það myndi hann ekki gera í dag.