Páll er í viðtali í Morgunblaðinu í dag um eldgosið sem hófst á Reykjanesskaganum í gærmorgun en gosið stóð mjög stutt yfir í samanburði við önnur gos á þessu svæði.
Páll bendir í fyrsta lagi á að gangurinn sem fylgir þessum atburði sé miklu stærri og lengri en í síðustu gosum á svæðinu.
„Í öðru lagi er gosið frekar lítið og virðist hætt í þessum töluðu orðum en gangurinn heldur áfram að lengjast. Í raun er þetta meira gangainnskot heldur en eldgos sem þarna hefur átt sér stað,“ segir hann og bætir við að venjulega sé það þannig að skjálftavirknin hætti þegar gosin koma upp. Það gerðist ekki í gær.
„Skjálftavirknin hélt áfram ótrufluð þrátt fyrir gos. Þetta er því gangainnskot en gosið fylgir með,“ segir Páll við Morgunblaðið.
Hann segir að atburðurinn minni á atburðina í Kröflu árið 1980.
„Í Kröflu þekktum við að kvikuinnskotin gátu hagað sér með mjög mismunandi hætti. Gos sem varð í Kröflueldum í mars árið 1980 minnir nokkuð á þetta en örugglega á margt eftir að gerast enn. Gangurinn er enn að lengjast og stefnir í norðaustur. Þar er skjálftavirkni,“ segir hann.
Veðurstofa Íslands sendi frá sér tilkynningu um stöðu mála í morgun og í henni var bent á að engin virkni hafi sést á gossprungunni síðan í gær.
Fram kemur að upp úr klukkan 21 í gærkvöldi hafi farið að draga úr skjálftavirkni á svæðinu, en ef marka má yfirlit Veðurstofunnar yfir jarðskjálfta síðustu 48 tímana sést að enn er talsverð skjálftavirkni á svæðinu nú í morgunsárið.