Hæstiréttur hefur hafnað því að taka fyrir mál Vilhelms Norðfjörð Sigurðssonar sem var dæmdur fyrir nauðgun og ítrekuð húsbrot gegn fyrrverandi sambýliskonu sinni.
Vilhelm var dæmdur í fimm ára fangelsi í Héraðsdómi Norðurlands eystra 31. janúar árið 2024. Í dómi Landsréttar þann 12. desember síðastliðinn voru bætur konunnar hækkaðar úr 2 milljónum króna í 3 milljónir.
Í tvígang fór hann óboðinn inn á heimili konunnar og beitti hana ofbeldi. Einnig hafði hann í hótunum við hana.
Vilhelm neitaði sök og sagði um dæmigerðar „haltu mér, slepptu mér“ kærustuerjur að ræða. En á meðal gagna í málinu var efni úr öryggismyndavél á heimili konunnar sem var talið vega þungt gegn honum.
Vilhelm óskaði eftir því að Hæstiréttur tæki málið fyrir og bar fyrir sig að ekki hefði reynt á sönnunargildi gagna úr upptökubúnaðinum. Taldi hann Landsrétt hafa byggt sakfellingu hans á huglægu mati.
Á þetta féllst Hæstiréttur ekki og hafnaði því að taka málið fyrir. Taldi rétturinn að málið lúti ekki að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé að fá úrlausn Hæstaréttar á.