Aðalráðgjafi Donald Trump hefur lýst því hvernig Bandaríkin geta þvingað Evrópu og ríki í öðrum heimshlutum til að fallast á samning sem mun gjörbreyta hinu alþjóðlega viðskiptakerfi.
Nú velta margir því fyrir sér hvort Trump og ráðgjafar hans séu að vinna að því að hrinda þessum samningi í framkvæmd en í stuttu máli sagt gengur hann út á að lækka gengi dollarans. Hafa margir velt þeirri spurningu upp hvort sú ringulreið, sem hefur einkennt stjórnartíð Trump fram að þessu, sé hluti af þessari áætlun.
Gagnrýnendur segja að mikil hætta sé að það endi með nýrri fjármálakreppu ef Bandaríkin leika þennan leik.
Trump hefur til skiptist hótað tollum, lagt toll á, frestað tollum og síðan lagt þá á að nýju. Um leið hefur hann sáð efasemdum um stuðning Bandaríkjanna við bandalagsríkin í NATÓ.
Ef eitthvað er til í sögunum um Mar-a-Lago-samninginn, þá eru tollarnir hugsanlega fyrsta skrefið í að hrinda þessari stóru áætlun úr vör.
Stephen Miran, aðalráðgjafi Trump varðandi efnahagsmál, lýsti þessari stóru áætlun í greiningu sem var birt í nóvember. Eins og áður sagði þá gengur hún í aðalatriðum út á að veikja dollarann.
Trump hefur ítrekað sagst vera heitur fyrir að veikja gengi dollarans en hann hefur ekki beint rætt um greiningu Miran.
Scott Bessent, fjármálaráðherra, er sagður styðja hluta af áætluninni en vill þó hafa dollarann sterkan.
Miran hefur vísað því á bug að aðgerðir Trump og stjórnar hans tengist þessari áætlun á nokkur hátt en það dregur ekki úr vangaveltunum því margt af því sem er verið að gera og hefur verið gert, fellur vel að áætluninni.
Miran telur að eftir að Bandaríkin hafa lagt refsitoll á Evrópu og Kína, þá verði auðveldara að fá þau til að ganga til samninga um gjaldmiðlamál. Í greiningu sinni segir Miran að Bandaríkin geti notað tolla og „sameiginlegar varnarmálaskuldbindingar og bandarísku öryggistrygginguna“ sem vopn í þessari áætlun sinni.