Bandarískur svæfingalæknir er nú sakaður um að hafa reynt að ráða eiginkonu sína af dögum á vinsælli gönguleið í Hawaii. Læknirinn, Gerhardt Konig, hafði sakað konu sína um framhjáhald og ákvað í afbrýðissemiskasti að drepa hana. Hjónin höfðu farið í gönguferð til að fagna afmæli eiginkonunnar.
Samkvæmt ákæruvaldinu á Hawaii reyndi Konig að berja konu sína til dauða með hníf. Eins reyndi hann að sprauta hana með óþekktu efni. Loks reyndi hann að hrinda henni framan af klettabrún. Þrjár morðtilraunir á stuttum tíma sem heppnuðust þó, sem betur fer ekki.
„Þegar Garhardt nálgaðist greip hann í upphandlegginn á mér og byrjaði að ýta mér að klettabrúninni. Hann var að öskra eitthvað á borð við: „Komdu hingað aftur, ég er orðin svo fokking leiður á þér“ og svo hélt hann áfram að ýta mér. Hefði ég farið þarna fram af hefði ég líklega dáið,“ er haft eftir konunni sem hefur nú óskað eftir nálgunarbanni.
Hún lýsir atvikum svo að maður hennar hafi staðið við klettabrún og beðið hana að koma og taka með sér sjálfu. Henni fannst þó óþægilegt að standa svona nærri brúninni, sagði nei við mann sinn og gerði sig líklega til að yfirgefa klettinn. Þá fór hann að öskra á hana og ýtti henni, tók svo upp stein og barði hana svona 10 sinnum í höfðið.
Hún öskraði eftir hjálp og þegar hún heyrði tvo göngumenn nálgast tókst henni að skríða í átt til þeirra. Annar göngumaðurinn sagði við lögreglu að eiginkonan hefði öskrað: „Hann er að reyna að drepa mig, hann er að berja mig með steini“.
Þegar sjúkrabíll mætti á svæðið var eiginkonan illa farin en lífsmörk góð.
Konig hafði forðað sér á hlaupum. Hann hringdi svo í uppkominn son sinn, þakinn blóði og sagði: „Ég reyndi að drepa hana en hún slapp“ og bætti svo við að hann væri að íhuga að stytta sér aldur. Lögregla hafði uppi á honum sjö tímum eftir árásina.
Eiginkonan greindi eins frá því að maður hennar hefði svo gripið upp tösku sem hann var með og reyndi að sprauta hana með óþekktu efni. Hún varði sig og tókst að kasta sprautunni frá þeim. Þá hafi maður hennar strax farið aftur í töskuna til að sækja aðra sprautu.
Eiginkonan sakar mann sinn um viðvarandi heimilisofbeldi síðan í desember, en þá fór hann að gruna að hún hefði verið honum ótrú. Hann varð bilaður af afbrýðisemi og beitti hana ítrekað kynferðisofbeldi, vaktaði öll hennar samskipti og gerðist mjög stórnsamur.
Læknirinn situr nú í gæsluvarðhaldi, en hjónin eiga tvö ung börn saman.