Nokkra athygli hefur vakið framganga starfsmanna Morgunblaðsins. Andrésar Magnússonar og Stefán Einars Stefánssonar, á bjórkvöldi hlaðvarpsins Þjóðmála sem öllum er aðgengilegt. Fóru þeir ekki í grafgötur með hversu lítið þeim þykir til Flokks Fólksins og ráðherra hans koma en Stefán Einar er virkur þátttakandi í starfi Sjálfstæðisflokksins. Hæddust þeir einkum að Ásthildi Lóu Þórsdóttur sem sagði nýlega af sér sem mennta- og barnamálaráðherra og eftirmanni hennar Guðmundi Inga Kristinssyni. Líktu þeir Ásthildi Lóu við heimsfrægan eltihrelli auk þess að fara rangt með staðreyndir í máli hennar. Hæddust þeir sömuleiðis að tungumálakunnáttu Guðmundar Inga og sögðu hann varla læsan.
Í upphafi þáttar hæddust stjórnandinn Gísli Freyr Valdórsson, fyrrum aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins og gestir hans Andrés Magnússon, blaðamaður á Morgunblaðinu og Stefán Einar Stefánsson, þáttastjórnandi á sama fjölmiðli, að tungumálakunnáttu Guðmundar Inga.
Síðan ræddu þeir nánar erfiðleika Guðmundar Inga við að flytja ávarp á ensku sem var hans fyrsta embættisverk eftir að hann tók við af Ásthildi Lóu. Stefán Einar líkti frammistöðunni við nám í tungumáli sem er flestum Íslendingum meira framandi:
„Þetta er allt í tómu tjóni. Ég held að menntamálaráðherranum hljóti að hafa liðið eins og í fyrsta tíma í hebresku þegar hann var settur í þessar aðstæður. Þetta var fyrsta embættisverkið. Það fyrsta sem ráðherrann sagði við þjóðina, alheiminn þegar hann tók við: „I´m a very good morning“. Ég held að hinir 25 menntamálaráðherrarnir hafi hugsað bara: þau eru öll á sveppatrippi.“
Þegar talið barst að Ásthildi Lóu hélt hispursleysið áfram. Stefán Einar tók fyrstur til máls:
„Allt hófst þetta eitt haustkvöld 1989 … Þetta er með hreinum ólíkindum. Ég man … að þegar ég opnaði þetta: Ásthildur Lóa segir af sér, að ég man ég hugsaði já … hún hefur séð að sér í þessu fasteignamáli. Svo opnaði ég fréttina. Haldið þið að Kristrúnu hafi einhvern tímann grunað það að ríkisstjórn hennar stæði á brauðfótum út af einhverju svona kynferðis iffí máli hjá kvenráðherra gagnvart einhverjum dreng? Maður hefði kannski trúað þessu upp á einhvern karlkyns ráðherrann að hafa eitthvað verið á mörkunum. Svo reyndist það bara vera Ásthildur Lóa, barnamálaráðherrann.“
Vildu Gísli Freyr, Stefán Einar og Andrés meina að ljóst væri að Ásthildur Lóa hafi verið knúin af oddvitum stjórnarflokkanna til að segja af sér en ekki gert það að eigin frumkvæði eins og haldið hefur verið ætíð fram af oddvitunum og Ásthildi Lóu sjálfri.
Stefán Einar bætti því við að töluverð samúð væri með Ásthildi Lóu og kaus síðan að fara rangt með staðreyndir málsins:
„15-16 ára strákur og miðaldra kona. Svona hefur gerst margoft í sjávarþorpum hringinn í kringum landið að fólk ræður ekki við sig og sérstaklega ekki ef að lýsingar Ásthildar Lóu eru réttar um það að hann hafi verið utan á glugganum hjá henni öll kvöld. Eina leiðin til að tryggja fjölskyldunni frið var bara að taka hann upp í.“
Skýrt hefur komið fram að Ásthildur Lóa var rétt kominn yfir tvítugt þegar hið umdeilda samband átti sér stað.
Stefán Einar bætti síðan enn frekar í:
„Þetta er alþekkt aðferð við að þagga niður í fólki.“
Því næst furðaði Andrés sig á því að alltaf væri eitthvað að koma upp á með ráðherra Flokks fólksins. Þeir félagar rifjuðu upp umdeilt símtal Ingu Sæland, formanns flokksins og félags- og húsnæðismálaráðherra, til skólameistara Borgarholtsskóla vegna týnds skópars barnabarns hennar. Sagði Andrés málið allt vera „klikkun“ og það ætti ekki síst við um ofsafengin viðbrögð Ingu.
Barst síðan talið aftur að Ásthildi Lóu og ákvörðun hennar um að fara heim til konunnar sem krafðist hafði fundar með Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra vegna hennar. Stefán Einar líkti þá Ásthildi Lóu við aðalpersónu frægs sjónvarpsþáttar:
„Hún fékk bara Baby Reindeer heim til sín.“
Fyrir þau sem ekki vita þá er umrædd persóna eltihrellir í samnefndum sjónvarpsþætti á efnisveitunni Netflix og er persónan byggð á raunverulegri konu sem sökuð var um umsáturseinelti en sú kona öðlaðist nokkra frægð þegar þættirnir voru frumsýndir.
Stefán Einar hélt síðan áfram:
„Hvernig liði ykkur ef þið færuð í dyrasímann og Jóhann Páll væri kominn heim til ykkar?“
Þar á hann væntanlega við Jóhann Páll Jóhannsson umhverfisráðherra.
Andrés bætti síðan sínum hugleiðingum við:
„Hvað gerið þið ef barnamálaráðherrann mætir til ykkar klukkan tíu að kvöldi. Hringið þið á lögregluna? Barnavernd? Hringið þið í umboðsmann barna?“
Stefán Einar tók síðan aftur við og kaus að fara á ný rangt með staðreyndir málsins með því að setja sig í spor konunnar sem krafðist fundar með Kristrúnu vegna málsins en fékk Ásthildi Lóu í óumbeðna heimsókn:
„Heyrðu hún Ásthildur Lóa er hérna fyrir utan … Ég var að upplýsa Kristrúnu um að hún hefði eignast barn með barni fyrir 35 árum.“
Skýrt hefur komið fram að barnsfaðir Ásthildar Lóu var sjálfráða þegar barnið kom undir enda var sjálfræðisaldurinn 16 ár á þessum tíma.
Stefán Einar velti því næst fyrir sér þeim vanda Kristrúnar að starfa með Flokki fólksins í ríkisstjórn:
„Þetta hefur allt verið upp á tíu (í lífi Kristrúnar, innsk. DV). Svo bara myndar hún ríkisstjórn með fólki sem er bara með hlutina ekki einu sinni upp á fimm. Þið sjáið Guðmund Inga hann myndi ekki ná stúdentsprófi í ensku. Hann myndi reyndar ekki ná grunnskólaprófi í ensku.“
Sagðist Stefán Einar þekkja til Guðmundar Inga sem væri fínn maður en byggi ekki yfir þeirri grunnhæfni sem krefjast yrði af ráðherrum. Ljóst væri að hann gæti ekki lesið skýrslur sem væru á ensku. Lýsti hann stöðu Guðmundar með eftirfarandi hætti:
„Þetta á sér eitt hugtak sem er kallað andverðleikar. Fólki er lyft upp á því sem það hefur ekki verðleika til. Þetta er andverðleikastjórn og það er mjög alvarlegt mál.“
„Við horfum upp á hvert dæmið á fætur öðru þar sem ráðherrar búa ekki yfir dómgreind eða grunnhæfni í ensku, eða hvað það er og öllum virðist slétt sama.“
Fór það mikið í taugarnar á Andrési og Stefáni Einari að svo margir hefðu komið Guðmundi Inga og Ásthildi Lóu til varnar. Sagði Stefán Einar um það:
„Hvað sagði Björg Eva Erlendsdóttir?: Ég gæti ekki hugsað mér að hafa barnamálaráðherra sem hefði ekki gert neitt svona af sér. Það er bara ég gæti ekki hugsað mér að hafa landlækni sem hefði ekki drepið mann. Hvaða rugl er þetta?“
Raunar var það kona Bjargar, Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, sem viðhafði umrædd ummæli en þó ekki með þeim hætti sem Stefán Einar hélt fram. Sagði Þóra í Facebook-færslu:
„Ég vil ekki endilega vammlausan barnamálaráðherra, ég vil frekar breyska manneskju sem getur skilið núansana í tilverunni. Verða börn betur sett með harðlæstan og lokaðan barnamálaráðherra í gráum jakkafötum sem hefur aldrei misstigið sig?“
Andrés sagði því næst um Guðmund Inga:
„Við sjáum þetta sama með menntamálaráðherrann okkar nýja. Allt í einu skipti engu máli hvort hann væri læs eða ekki. Bara hið besta mál og eiginlega ömurlegt ef hann væri læs bara af því hann er besti menntamálaráðherrann sem við höfum haft síðan Ásta Lóa var þarna.“