Þetta er meðal þess sem kemur fram í fréttavakt RÚV um stöðu mála á Reykjanesskaga eftir að kvikuhlaup hófst á Sundhnúkagígsröðinni um klukkan 06:30 í morgun.
Rýmingu í Grindavík lauk í morgun en Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir að átta einstaklingar ætli að vera eftir í Grindavík. Hann segir að lögregla þvingi fólk ekki til að rýma, það sé þarna á eigin ábygð og þekki flóttaleiðir.
Þá ræddi RÚV við Ásrúnu Kristinsdóttur, forseta bæjarstjórnar í Grindavík, sem var í bænum í morgun þegar boð um rýmingu barst. Segir hún skjálftana fyrirferðameiri og því fylgi ónotaleg tilfinning. Um 200 skjálftar hafa mælst síðan kvikuhlaupið hófst og fannst til dæmis einn, sem var 4 að stærð, vel á höfuðborgarsvæðinu.
Veðurstofa Íslands sagði í tilkynningu í morgun að merki frá aflögunarmælum séu sterkari en sést hafa í síðustu atburðum á Sundhnúksgígaröðinni. Það sýni að talsvert magn kviku er á ferðinni. Merkin sem sjást sýna að kvikan er að hreyfa sig bæði til norðausturs en einnig til suðurs í átt að Grindavík.
Samhæfingarstöð Almannavarna var virkjuð á áttunda tímanum og er þyrla Landhelgisgæslunnar tilbúin að fara í loftið ef og þegar eldgos byrjar.