Aprílgöbb dagsins voru fjölmörg og ansi mörg þeirra voru hressandi og ansi raunveruleg. Margir eru afar varir um sig á þessum degi og trúa engu. Sjá má meðal annars í athugasemdum DV að margir virðast ekki nenna að lesa alvöru fréttir dagsins og skrifa athugasemdir um að um gabb sé að ræða.
En kíkjum á nokkur 1. apríl göbb í dag, hljópst þú eða áttaðir þú þig á að um gabb væri að ræða?
DV birti frétt um að tónlistarmaðurinn Jón Jónsson myndi standa grafkyrr sem lifandi gína í 99 mínútur í tilefni 99 ára afmælis 66°Norður. Jón mætti vissulega í glugga verslunarinnar á Laugavegi til að hægt væri að taka myndir og myndband fyrir gabbið. En allir sem þekkja Jón vita að hann er ekki að fara að vera kyrr í 90 mínútur.
Sjá einnig: Jón Jónsson lifandi gína á Laugavegi
Vatnajökulsþjóðgarður kynnti með stolti í frétt á vefsíðu sinni afmælistónleika þar sem IceGuys munu koma fram á Vatnajökli, ísheiminum sjálfum þann 5. júní. „Gestir mega búast við stórkostlegu sjónarspili elds og ís eins og Vatnajöklulsþjóðgarður og strákarnir eru þekktir fyrir. Takmörkuð sæti verða í boði til að huga að viðkvæmri náttúru og öryggi gesta.“ Ekki láta þetta einstaka tækifæri fram hjá ykkur fara. Það verður magnað að heyra nýjasta lag hljómasveitarinnar, Stígðu inn, í sjálfum ísheiminum!“ Skráning hófst á hádegi í dag til og með 5. apríl, en þegar smellt var á skráningu kom fram að um aprílgabb væri að ræða. „Þarna náðum við þér! Til hamingju, þú hljópst fyrsta apríl – þetta hlaut nú að vera of gott til að vera satt!“
Kynlífstækjaverslunin Blush kynnti byltingarkennda nýjung fyrir viðskiptavini til leiks- Fróunarklefa! „Þetta einstaka rými gefur viðskiptavinum tækifæri til að velja vöru úr verslun sér að kostnaðarlausu, prófa hana og gefa vörunni umsögn. Markmiðið er að gefa viðskiptavinum tækifæri til að prófa sig áfram með vörur, finna hvað það er sem henta, taka upplýsta ákvörðun og um leið gefa umsagnir sem hjálpa öðrum í leit að hinu fullkomna kynlífstæki.“
Hamborgarabúlla Tómasar kynnti hörkuspennandi samstarf við welska knattspyrnuliðið Wrexham A.F.C.
Myndmerki í réttri röð: Gamla ELKO myndmerkið, Sky Lagoon, Krónan, Arna, Eimskip, Hopp, KSÍ, Icelandair, Kvika, Íslandsbanki, Lyfja, Te og Kaffi.
Vísir fékk einn skemmtilegasta mann landsins í lið með sér í grínið, Svein Waage framkvæmdastjóra. Sveinn sagðist bugaður á áreitinu sem fylgir því að vera Teslu eigandi og bíllinn því til sölu fyrir slikk. Sveinn tók fram að hann keypti bílinn löngu áður en Elon Musk fór að vera með vesen og valda viðskiptavinum sínum þessum vandræðum. „Ég vil bara selja þennan bíl, losna við Elon Musk úr mínu lífi og verða frjáls maður á ný,“ sagði bugaði bifreiðaeigandinn.
Hagkaup er orðið hundleitt á fólki sem býr í synd og býður því hjónavígslur allan sólarhringinn þar sem athafnastjóri mun sjá um vígsluna. Þvílík snilld að geta verslað kornflex og klósettpappír og sagt já um leið. Ekkert vesen. Slagorð Hagkaupa hefur ávallt verið þar sem íslendingum finnst skemmtilegast að versla, líklega bætist gifta sig við. Spurning hvort hægt sé að skilja líka við þjónustuborðið þegar makinn neitar að sjá um þvottinn?
„Í kjölfar afar vel heppnaðs samstarfs um afhendingu vegabréfa og nafnskírteina, þá fórum við að hugsa hvað við gætum gert fleira til að einfalda viðskiptavinum okkar lífið. Það lá beint við að bæta þessari þjónustu við hjá okkur“, segir Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaups. „Að bæta við hjónavígslum var eiginlega næsta rökrétta skrefið í þjónustuframboði verslunarinnar“, bætir Sigurður við. Í kynningarskyni voru vígslurnar fríar í dag en frá og með morgundeginum kemur fólk til með að þurfa að greiða vægt gjald samkvæmt verðskrá fyrir þjónustuna.
Bónus tilkynnti nýja tegund hinna sívinsælu Ísblóma með beikoni. Hljómar áhugavert!
Hopp stækkaði flotann og bætti við rafmagnsrellu. „Nú getur þú hoppað innanlands á rafmagnsrellu Við stækkum flotann og aukum við þjónustu Hopp Reykjavíkur með HoppAir! Við trúum því að loftið sé fyrir alla og bjóðum uppá grænar samgöngur hvert sem þú ferð
Kíktu í appið og hoppaðu innanlands með HoppAir! Minni mengun – meira hopp.“
Krónan er að sjálfsögðu með eins og margar aðrar verslanir. Krónulúgan, ný þjónustuviðbót, einfaldar líf viðskiptavina. „Verið velkomin í framtíðina – Krónulúguna í Garðabæ! Nú geta viðskiptavinir Krónunnar ekið beint að lúgunni í Krónunni Akrabraut og sótt smáinnkaup eða pantanir sem hafa verið gerðar í Snjallverslun, eða pantað í lúgunni einfaldari innkaup, en hámarkspöntun í lúgu eru 10 vörunúmer. Sjáumst í lúgunni!“
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum tilkynnti um greiðslu nýs gjalds, sjálfugjalds. „Í kjölfar starfs hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar, sem var skipaður eftir innkomu sparnaðartillagna þjóðarinnar, var skipaður spretthópur ríkisstjórnarinnar í auðlindagjöldum og þar á meðal á vinsælum ferðamannastöðum. Spretthópur hefur í dag tilraunir með nýja gjaldheimtu á hegðun, atferli og framkomu ferðamanna á Þingvöllum. Tillagan kom fram í samtali við þjóðina um breytingar í ríkisskerfinu og ítarlegri leiðir til tekjuöflunar af ferðaþjónustunni í landinu. Helst þessi nýja tekjuöflun í hendur við nýútkomna fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem nær yfir árin 2026-2030. Sjálfugjaldið nær yfir svæðið í kringum Almannagjá, þar sem flestir sjálfhverfir ferðamenn fara um og setja sjálfa sig í öndvegi mynda sinna. Þeir verða samkvæmt tillögum spretthóps rukkaðir eftir; fjölda sjálfumynda, lengd myndskeiða, samkvæmt birtingu og hvort verið sé að taka landslagsmynd eða andlitsmynd. Í vinnslu, samkvæmt gervigreindarstefnu spretthóps ríkisstjórnarinar, á að nýta í framtíðinni gervigreind til að greina andlit gesta og greina samfélagsmiðlanotkun þeirra og innheimta eftir birtingu á slíkum miðlum. Miklar vonir eru bundnir við þá nálgun í náinni framtíð. Þar til gervigreindin tekur alfarið við munu landverðir fylgjast með og innheimta með posa. Spretthópurinn verður með opinn blaðamannafund um tilraunina kl 17.00 í dag þar sem farið verður yfir tillöguna og aðrar sem komið hafa fram.“
Landsbyggðarmiðlarnir Austurfrétt, Skessuhorn og Víkurfréttir tóku lyklaborðum saman og birtu sömu frétt um fyrirætlun ríkisstjórnarinnar að setja 24% virðisaukaskatt á samfélagsmiðla og streymisveitur og er SÍS sagt hvetja fólk til þess að birta ákveðna mynd á samfélagsmiðla sína til að mótmæla.
Síðastnefndi miðillinn bætti við frétt þar sem sagði frá því að skrokkur Boeing 757 farþegaþotu hafi verið fluttur með pramma að ströndinni við Sandvík á Reykjanesi. Ætlunin sé að koma vélinni fyrir á svarta sandinum, rétt ofan flæðamáls, sem hluti af verkefni sem snýr að því að laða ferðamenn að svæðinu. Með fylgdi mynd þar sem flugvélaskrokkurinn var í togi í sjónum.
Víkurfréttir bætti svo um betur og birti aðra frétt, um kött í Grindavík sem fæðst hefði með tréfót.
Menningarhúsin í Kópavogi buðu í opnunarhóf, Smásafnið var opnað í öllum menningarhúsunum. Safninu er ætlað að halda í við hraðann í samfélaginu og auka þjónustu við gesti menningarhúsanna. Menningarhúsin í Kópavogi, Bókasafn Kópavogs, Gerðarsafn, Náttúrufræðistofa og Salurinn, bæta nú við fimmta safninu. Smásafnið, mun bjóða upp á það besta úr öllum heimum, en þar hefur verið unnið að því, með hjálp gervigreindar og þrívíddarprentunar að stytta bækur, smækka listaverk, stytta tónverk og halda örverusýningu.