Skipið var við veiðar á Hornbanka norður af Horni þegar skipið fékk á sig hnút með þeim afleiðingum að tveir skipverjar slösuðust þegar veiðarfærið rann til og á mennina.
Í skýrslunni segir að þrír skipverjar hafi verið við vinnu við veiðarfærið meðan skipið var á togi.
„Hnútur kom á bakborðshlið skipsins með þeim afleiðingum að það kastaðist yfir á stjórnborðshliðina. Bobbingalengja, sem hafði verið dregin aftur að skuthliði, lá óbundin á miðju þilfarinu. Tveir menn voru að gera við veiðarfærið þegar lengjan kastaðist yfir á stjórnborðshlið rennunnar þar sem mennirnir urðu á milli. Tókst þriðja manninum sem einnig var á efra þilfarinu að setja gils í lengjuna, hífa í hana og losa mennina.“
Um 5-10 mínútur liðu þar til skipstjórinn frétti af því sem gerst hafði. Annar mannanna fékk mikið högg á hægra hnéð og var talið að hann væri mikið slasaður. Hinn maðurinn sem festist slasaðist mun minna og kom í ljós eftir skoðun á sjúkrahúsi að hann hafði tognað á fæti.
Í skýrslunni kemur fram að farið hafi verið með hinn meira slasaða í sjúkraherbergi skipsins þar sem honum var gefið verkjalyf.
„Haft var samband við Landhelgisgæsluna og vakthafandi lækni hennar. Voru honum sendar myndir af áverkum hins slasaða og í framhaldinu var ákveðið að sigla með hann til Ísafjarðar.“
Í skýrslunni kemur fram að haft hafi verið samband við Sjúkrahúsið á Ísafirði en sá sem var fyrir svörum þar taldi ekki hægt að taka á móti hinum slösuðu fyrr en klukkan átta um morguninn. Þó var sendur sjúkrabíll við komu skipsins til Ísafjarðar um klukkan 03:00.
„Hinn meira slasaði var fluttur á sjúkrahúsið á Ísafirði með sjúkrabílnum en sá sem var minna slasaður var keyrður af lögreglu á sjúkrahúsið. Þegar þangað kom taldi sá er var á vakt á sjúkrahúsinu sig ekki geta skráð þá inn og lagði til að lögreglan hýsti mennina til morguns sem lögreglan hafnaði.“
Fór því svo að mönnunum var komið fyrir í herbergi á sjúkrahúsinu með tveimur rúmum og fengu þeir að vera þar til morguns.
„Um morguninn kom enginn að vitja þeirra og að lokum fór sá sem var minna slasaður fram og kom þá í ljós að það vissi enginn af þeim. Í ljós kom að hinn meira slasaði hlaut ekki varanlegan miska að því að best er vitað en er ekki kominn til vinnu þegar þetta er ritað. Sá er minna slasaðist tognaði á fæti og var orðinn vinnufær skömmu síðar.“
Í skýrslunni kemur fram að telja megi mestu mildi að ekki hafi farið verr. Beinir nefndin því til Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða að komið sé á verklagi sem tryggir að sjómenn sem þangað þurfa að leita á öllum tímum sólarhrings fái tilskylda umönnun.