Eldgos er hafið í Sundhnúksgígaröðinni, en eldgosið er sýnilegt í vefmyndavél RÚV sem sýnir frá Þorbirni.
Í tilkynningu Veðurstofu Íslands segir:
„Eldgos er hafið á Sundhnúksgígaröðinni norðan við Grindavík. Það sést á vefmyndavélum og virðist vera staðsett SA við Þorbjörn.
Þyrla Landhelgisgæslunnar fer í loftið innan skamms til þess að staðfesta nákvæma staðsetningu og stærð eldgossins. Nánari upplýsingar verða aðgengilegar fljótlega. Fluglitakóði hefur verið færður á rautt, þangað til nánari upplýsingar um öskudreifingu berast.“
Sprungan myndaðist nærri varnargörðunum við Grindavík en hélt svo áfram að lengjast og er nú komin í gegnum varnargarðinn norðan Grindavíkur. Veðurstofan segir að lengd kvikugangsins undir Sundhnúksgígaröðinni, sem þegar hefur myndast, sé um 11 km sem er það lengsta sem hefur mælst síðan 11. nóvember 2023. Miðað við vindátt núna mun gasmengun frá eldgosinu berast í norðaustur í átt að höfuðborgarsvæðinu.
Uppfært: 10:04 – Þyrla Landhelgisgæslunnar er komin í loftið.