Ástæðan er sú að flokkurinn hefur viljað koma Birni Gíslasyni í menningar- og íþróttaráð borgarinnar í stað Kjartans Magnússonar en staðreyndin er sú að hann telst vanhæfur, samanber minnisblað skrifstofustjóra borgarstjórnar sem dagsett er 26. mars síðastliðinn.
Björn er formaður Fylkis og sagði hann í frétt Vísis í gærmorgun að hann hefði enga framfærslu eða tekjur af því að vera formaður félagsins. „Ég skil ekki hvernig ég get verið vanhæfur. Ég held að þetta væri frekar bara kostur, að vera með einhvern sem er í þessu. Þetta er svipað og ef kennari væri í skóla- og frístundaráði. Það er bara kostur að þekkja starfið,“ var haft eftir Birni.
Dóra Björt lítur öðrum augum á málið og segir að ef fulltrúi gegni hlutverki sem hann er vanhæfur til að gegna grafi það undan lýðræðislegri, faglegri og sanngjarnri stjórnsýslu og opni möguleika á spillingu.
„Það er gjörsamlega óskiljanlegt – að þrátt fyrir þetta lögfræðiálit sem kveður á afdráttarlausan hátt á um að fulltrúinn sé vanhæfur til setu í ráðinu, að það geti haft fjölmörg neikvæð áhrif á ákvarðanatöku í ráðinu og traust á ákvörðunum ráðsins, að það geti jafnvel gert ákvarðanir ráðsins ólögmætar og Reykjavíkurborg skaðabótaskylda vegna einstaka ákvarðana – að Sjálfstæðisflokkurinn haldi til streitu kröfu sinni um að kjósa þennan borgarfulltrúa í ráðið,“ segir Dóra í grein sinni.
Hún bendir á að fyrir borgarstjórnarfundi í dag liggi tillaga Sjálfstæðisflokksins um að skipa Björn í ráðið en sama tillaga lá fyrir á síðasta fundi og var þá frestað.
„Ef vafi leikur á um réttmæti lögfræðiálitsins sem komist hefur að þessari niðurstöðu að mati fulltrúa Sjálfstæðisflokksins er ekki bara lágmark heldur liggur í augum uppi að það sé ófrávíkjanleg skylda allra hlutaðeigandi að komast til botns í málinu eftir þar til bærum leiðum áður en fulltrúinn er kosinn í ráðið. Annað væri móðgun við lýðræðislega ferla og færi að mínu mati ansi nærri því að því að vera afglöp í starfi,“ segir hún.
Dóra segir enn fremur að lýðræðislegur réttur flokka til að tilnefna sína fulltrúa til nefndarsetu sé afar mikilvægur. Það sé þó ábyrgðarhluti og siðferðilega ámælisvert að tilnefna fulltrúa í ráð sem vitað er að sé vanhæfur samkvæmt bestu upplýsingum.
„Það er vont og óábyrgt að Sjálfstæðisflokkurinn sé viljugur til að taka slíka áhættu með lögmæti ákvarðana ráðsins. Það er vont og óábyrgt að setja aðra fulltrúa borgarstjórnar í þá stöðu að þurfa að stíga inn í slíkt mál í stað þess að axla pólitíska ábyrgð á eigin nefndarsætum. Það er þó sumpart í takt við annað sem flokkurinn hefur í áranna rás staðið fyrir og ætti kannski ekki að koma mér svona á óvart, en ég var samt að vona að við værum komin lengra en þetta. Sjálfstæðisflokkurinn og hans hagsmunir eiga ekki að skipta meira máli en hagsmunir almennings.”