Á sunnudagsmorgun var ráðist á mann sem var að þvo þvott fyrir ættingja í þvottahúsinu Wash Laundromat við Grettisgötu 3 í miðborg Reykjavíkur. Árásarmaðurinn sparkaði í manninn eftir að hann hafði hrökklast út úr húsinu undan hótunum hans og upp Skólavörðustíg.
„Ég var að aðstoða með flutninga og þvott fyrir ættingja í gær og kom þarna með mikinn þvott. Það er mjög heppilegt að koma þarna ef þvo þarf mikið í einu því þarna eru stórar vélar sem taka miklu meiri þvott en venjulegar heimilisþvottavélar,“ segir maðurinn í viðtali við DV, en hann er á sjötugsaldri.
„Það komu inn þarna tveir menn, frekar ræfilslegir ef ég leyfi mér að taka svo til orða, annar var ungur, sirka 35 ára, en hinn virtist vera um sextugt. Mér heyrðust þeir tala rúmensku,“ segir maðurinn og aðspurður segir hann mennina ekki hafa verið að þvo þvott en borið sig að eins og þeir væru hagvanir í þvottahúsinu og héldu þar oft til.
Maðurinn segir að aðkomumennirnir hafi í fyrstu mælt hann út en hann hafi látið sem hann tæki ekki eftir þeim og sýslað með símann sinn á meðan vélin þvoði.
„Þeir fór að telja saman einhverja smápeninga sem þeim hafði áskotnast, ég veit ekki hvernig, og síðan fór yngri maðurinn út að reykja en sá eldri lagðist út af í gluggakistu og notaði íþróttatösku sem hann hafði meðferðis sem kodda. Þarna var kona að þvo og ég sagði við hana lágt að þetta væri bara eins og gistiheimili.“
Þó að maðurinn væri lágmæltur tók Rúmeninn eftir athugasemdinni og brást reiður við. „Hann varð mjög reiður og sagði: Þú talar ekki um mig, eða eitthvað svoleiðis. Ég er ekkert að tala um þig, svaraði ég og gekk út með símann í höndunum. Hann stökk á fætur og elti mig út. Ég svona hálfhljóp undan honum upp Skólavörðustíginn. Mér var í mun að ástandið færi ekki að stigmagnast upp í einhver slagsmál og vildi frekar forða mér en að lenda í slíku. Ekki síst af því maður hefur lesið margar fréttir um hnífaburð í miðborginni. Þetta var svona rifrildi út af engu sem hefði getað endað illa ef ég hefði ekki gætt mín. Ég reyndi að vera sem rólegastur en hann kallaði: No Police! No Police!“
Óttaðist Rúmeninn greinilega að lögregla kæmi á vettvang. Viðmælandi segir síðan að maðurinn hafi sparkað í sig, nokkuð fast. „Það kom mér á óvart, sannast sagna,“ segir hann. „Þarna var krökkt af túristum og kínverskir ferðamenn þarna rétt hjá sem horfðu agndofa á þessi ósköp.“
Maðurinn segist hafa séð yngri Rúmenann míga utan í bókabúð Eymundssons við Skólavörðustíg skömmu síðar. Sjálfur ákvað hann að fara ekki strax aftur í þvottahúsið heldur koma við þar síðar um daginn til að ná í þvottinn.
Aðspurður segist hann hafa ákveðið að hringja ekki í lögreglu. „Ég var önnum kafinn þennan dag við að aðstoða við flutninga og þegar ég losnaði sá ég ekki hag minn í því að tilkynna þetta til lögreglu. Það er spurning hvort þvottahúsið eigi upptöku af þessu því þarna stendur að myndaeftirlitskerfi sé á staðnum. Ég hef hins vegar ekki hugmynd um hvort það er virkt.“
Maðurinn segist hafa jafnað sig á þessari lífsreynslu og honum varð ekki meint af sparki Rúmenans. Hann er hins vegar hugsi yfir því hvað býr undir yfirborði friðsæls mannlífs í miðborginni en þennan dag var mikið af ferðamönnum að njóta lífsins.“
Hann segir í sjálfu sér ekki óeðlilegt að heimilislaust fólk haldi til á stöðum eins og þessum, þar sem opið er fyrir gest og gangandi. „En það er dálítið leiðinlegt að geta ekki nýtt sér þessa þjónustu í fullvissu um að vera látinn í friði. Ég myndi til dæmis ekki kæra mig um að dóttir mín færi ein á svona stað, svo dæmi sé tekið.“
Wash Laundromat er ekki með skráð símanúmer. DV sendi fyrirspurn á netfang fyrirtækisins og spurði hvort forsvarsmenn könnuðust við þetta atvik. Einnig var spurt hvort hangs óviðkomandi fólks eða önnur óæskileg hegðun væri vandamál á staðnum. Greint verður frá svörum ef þau berast og fréttin uppfærð.
Sjá viðbrögð eigenda þvottahússins hér.