fbpx
Miðvikudagur 02.apríl 2025
Fréttir

Gómez hvarf á afmæli yngsta barnsins og fannst 10 dögum síðar í Þorlákshöfn – „Þú ert búinn að valda mér og mínum tilfinningalegum skaða“

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 31. mars 2025 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í gær birti DV frétt um að kattaeigendur á Kársnesi í Kópavogi væru mjög uggandi yfir hvarfi katta á svæðinu. Svo virðist sem minnst fjórir kettir hafi horfið sporlaust þar í marsmánuði og hafa kettirnir ekki fundist þrátt fyrir mikla leit.

Sjá einnig: Kattaeigendur á Kársnesi uggandi yfir hvarfi fjögurra katta

Síðar um kvöldið fékk eigandi eins þeirra, sem og blaðamaður, upplýsingar um að sést hefði til kattarins í Þorlákshöfn. Myndir af kettinum Gómez og fyrirspurn um hvort einhver kannaðist við hann voru birtar í íbúahópi Þorlákshafnar á Facebook.

Mynd sem tekin var af Gómez í Þorlákshöfn á sunnudag. Mynd: Facebook.
Mynd sem tekin var af Gómez í Þorlákshöfn á sunnudag. Mynd: Facebook.

Eigendur Gómez fóru strax til Þorlákshafnar að leita, en ekkert gekk í gærkvöldi. Þröstur Jónasson eigandi Gómez sagði í samtali við DV í morgun að þau væru á leið aftur til leitar í Þorlákshöfn. 

Upp úr kl. 14 í dag bárust gleðitíðindi: Kattaveiðum í Þorlákshöfn lokið með góðum árangri. Við erum á leiðinni heim með Gómez,“ segir Þröstur.

Telur óprúttinn aðila að verki

Arndís Björg sem vakti athygli á hvarfi kattanna fjögurra í hópi íbúa á Kársnesi segir við DV:

„Það er mikið af dýravinum í Þorlákshöfn sem munu líta eftir honum. Hann er örugglega mjög hræddur. Það voru ótrúlega margir í Þorlákshöfn sem tóku þátt í leitinni í gær.“

Aðspurð um hvort að einhver væri að leika sér að því að flytja ketti vísvitandi milli landshluta segir hún: 

„Já ég tel svo vera, það hvarf ein kisa frá Kársnesinu fyrir 1 og hálfu ári og ég fann hana í Vesturbænum í Reykjavík. Ég tel sama aðila hér á ferð.“

Skrifar skýr skilaboð til þess sem tók heimilisköttinn

Í færslu sem Þröstur skrifaði í gær lýsir hann síðustu tíu dögum í lífi fjölskyldunnar eftir að heimiliskötturinn hvarf á afmælisdegi yngsta barnsins. Segir hann fjölskylduna með aðstoð góðs fólks hafa gert mikla leit að kettinum. Hann segist furðu lostinn yfir þessari hegðun og birtir skilaboð til þess aðila sem virðist hafa fært köttinn milli landshluta. Segir hann athæfið gera viðkomandi að vondri manneskju. 

„Föstudaginn 21. mars, á afmæli yngsta barnsins míns, hvarf heimilskötturinn Gómez. Við erum búin að: auglýsa eftir honum, ganga í hús, og trufla nágranna okkar til að opna fyrir okkur skúra og skemmur og verja töluverðum tíma í að leita að honum og hafa af honum miklar áhyggjur. Á svipuðum tíma hafa einnig horfið sporlaust þrír aðrir kettir héðan á Kársnesinu.

Núna í dag sunnudaginn 30. mars fáum við senda mynd af kettinum okkar frá Þorlákshöfn. Gott fólk þar sá köttinn, birti af honum mynd og kattavaktin og aðrir dýravinir komu skilaboðum til okkar. Við keyrðum þangað, leituðum og skildum eftir mat og komum til með að verja næstu dögum í ferðir fram og til baka til að reyna að hæna köttinn að okkur og koma honum aftur heim.

Ég er furðulostinn yfir þessari hegðun. Ég veit að það líkar ekki öllum við ketti og hafa allt á hornum sér yfir þeim en það getur ekki skýrt svona hegðun. Svo mig langar að koma skilaboðum til þessa sjálfskipaða einkabílstjóra.

* Lagalega séð er kötturinn mín eign, þegar þú tekur köttinn og ferð með hann í burtu þá stalstu honum. Þú ert þjófur.

* Þú gerðist sekur um dýraníð með því að fara með köttinn úr umhverfi sínu. Þú hefur greinilega ekki nægjanlega þekkingu á köttum til að gera þér grein fyrir því að þú skaðar dýrið með því að taka það úr því umhverfi sem það þekkir og fara með það í burtu.

* Þú ert búinn að valda mér og mínum tilfinningalegum skaða, við höfum haft stöðugar áhyggjur af kettinum, ekki sofið, varið ómældum tíma í að leita að honum og hafa áhyggjur. Ég vona að tár okkar hafi tryggt þér góðan nætursvefn og valdi þér vellíðan. Ef þú hefur smá vott af sómatilfinningu láttu eigendur hinna kattanna vita hvert þú fórst með þá.

* Þú ert að valda beinum kostnaði. Ég og aðrir fjölskyldumeðlimir hafa nú þegar tapað tíma úr vinnu. Sjálfboðaliðar hafa varið tíma sínum í að leita að kettinum okkar og hinum þremur sem hurfu og á næstunni þarf ég að keyra fleiri ferðir til Þorlákshafnar og taka mér frí frá vinnu sem kostar. Ef að hugmyndin um að hegðun þín hafi valdið öðrum tilfinningalegum skaða nær ekki að hreyfa við þér þá kannski nær það inn skelina á þér að vita að ég mun gera á þig kröfur um bætur vegna vinnutaps, dýralæknareikninga og rukka þig um akstursgjald þegar ég finn þig.

* Að lokum. Ég kem úr sveit, þar þykir fátt verra en fólk sem er vont við málleysingja. Við allar gegningar, líka þegar aflífa þarf dýr, hvort sem það eru meindýr eða húsdýr, þá er mikilvægt að umgangast þau af virðingu og láta þau ekki þjást. Það gerðir þú ekki, þú varst vondur við dýr sem gerði ekkert annað en að vera til. Það gerir þig að vondri manneskju.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Jón Þór í kjölfar byssuógnar í Grindavík – „Við hlúum að okkar fólki“

Jón Þór í kjölfar byssuógnar í Grindavík – „Við hlúum að okkar fólki“
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Óttast að kvika flæði í sprungum undir Grindavík og komi upp þar

Óttast að kvika flæði í sprungum undir Grindavík og komi upp þar
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Ný sprunga búin að opnast nær Grindavík

Ný sprunga búin að opnast nær Grindavík
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Notkun á gagnvirkum skjám mun snaraukast

Notkun á gagnvirkum skjám mun snaraukast
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Fengu litla sem enga aðstoð eftir slys: „Kom þá í ljós að það vissi enginn af þeim“

Fengu litla sem enga aðstoð eftir slys: „Kom þá í ljós að það vissi enginn af þeim“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Rýming í Bláa lóninu gekk vel

Rýming í Bláa lóninu gekk vel