Lögreglan í Flórída hefur endurheimt fjóra demantseyrnalokka sem stolið var frá Tiffany & Co fyrir skemmstu. Þjófurinn hafði gleypt demantana og sáust þeir með röntgenmynd.
Fréttastofan Sky News greinir frá þessu.
Þjófurinn bíræfni sagði starfsfólki skartgripaverslunarinnar, sem staðsett er í Orlando, að hann hefði áhuga á að kaupa fjóra demantseyrnalokka fyrir hönd ónefnds atvinnumanns sem léki með körfuknattleiksliðinu Orlando Magic. Verðmæti eyrnalokkanna er 770 þúsund dollarar, eða rúmlega 102 milljónir króna.
Honum var boðið inn í sérstakt bakherbergi til þess að skoða demantana en eftir skamma dvöl þar greip hann glingrið og olnbogaði sig út úr herberginu. Hann komst í bílinn sinn og náði að bruna burtu en öryggismyndavél í nálægri verslunarmiðstöð náði bílnúmerinu.
Þjófurinn keyrði um 550 kílómetra leið og var kominn í norðvesturhluta fylkisins þegar hann var stöðvaður. Hann var yfirheyrður í aftursæti lögreglubíls og sagði þá: „Ég hefði átt að kasta þeim út um gluggann. Verð ég ákærður fyrir það sem er í maganum á mér?“
Farið var með þjófinn á spítala og tekin röntgen mynd og viti menn þar komu eyrnalokkarnir í ljós. Ekki leið á löngu þar til þeir „skiluðu sér“, voru þvegnir og komið aftur til Tiffany & Co. Það verður heppin dama sem fær að ganga með þessa lokka í framtíðinni. Þjófurinn var ákærður og bíður örlaga sinna.