Einn er látinn eftir að grjót hrundi úr Steinafjalli á bíl á Suðurlandsvegi við Holtsós undir Eyjafjöllum. Slysið átti sér stað rétt fyrir klukkan 13 í dag. Þrír erlendir ferðamenn voru í bílnum, einn lést en hinir tveir hlutu minniháttar áverka.
Lögreglan á Suðurlandi greinir frá í færslu á Facebook. Áður hafði lögregla greint frá því að Suðurlandsvegi hefði verið lokað vegna alvarlegs umferðarslyss. Vegurinn er enn lokaður og er engin hjáleið fram hjá slysstað. Ráðgert er að opna veginn fljótlega.
Þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang í dag var ökumaður bifreiðarinnar enn þá klemmdur fastur inni í henni, en ökumaðurinn, kona, var úrskurðuð látin á vettvangi. Rannsókn á slysinu er nú í höndum rannsóknardeildar Lögreglustjórans á Suðurlandi og nýtur aðstoðar tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.