Bjarni hefur skrifað nokkrar greinar um málið í Morgunblaðið og í grein sem birt er í dag segir hann að sú trú að landið njóti skjóls án þess að þurfa að taka á sig mikla ábyrgð hafi verið ráðandi í áratugi, jafnvel þó ytri aðstæður hafi gjörbreyst.
„Ríki sem hingað til hafa ekki talið sig þurfa að fjárfesta í eigin vörnum eru nú að stórauka framlög til varnarmála- og hernaðaruppbyggingar. Ísland getur ekki staðið hjá. Það þarf að axla ábyrgð og taka virkan þátt í þeirri þróun,“ segir hann og bendir á að þær tillögur sem hann hefur varpað fram að undanförnu snúist ekki aðeins um breytingar á yfirborðinu, heldur um djúpstæða stefnubreytingu í hvernig við hugsun um öryggi okkar og stöðu í alþjóðakerfinu.
Sjá einnig: Bjarni Már segir að Íslendingar þurfi að stofna her og leyniþjónustu
Hann segir að kjarnahlutverk hvers ríkis sé að tryggja öryggi borgara sinna. Engin önnur skylda ríkisvaldsins sé jafn mikilvæg.
„En í alltof miklum mæli hafa alltof margir litið svo á að við séum utan hættu – að veruleikinn sem önnur ríki glíma við nái ekki til okkar. Þessi nálgun er ekki lengur raunhæf ef hún var það einhvern tímann. Ísland er hluti af hinum vestræna heimi og þar með skotmark í þeim átökum sem eiga sér stað, hvort sem það eru netárásir, upplýsingahernaður, pólitísk íhlutun erlendra afla eða eitthvað miklu verra,“ segir hann og bætir við að engin samfélagsleg umræða sé mikilvægari en sú sem varðar öryggi og velferð borgaranna.
„Þjóðin þarf að taka virka afstöðu: Hvaða ábyrgð ber Ísland á eigin vörnum? Getum við leyft okkur að reiða okkur nær alfarið á aðrar þjóðir þegar kemur að varnarmálum? Hvernig tryggjum við að íslensk stjórnvöld hafi nægilega getu til að bregðast við nýjum og ófyrirséðum ógnum? Erum við tilbúin að fjárfesta í nauðsynlegum innviðum til að standa vörð um okkar eigin hagsmuni? Hversu lengi getum við staðið utan við þá þróun sem á sér stað í nágrannaríkjum okkar? Hvernig getum við tryggt að Ísland sé ekki veikur hlekkur í alþjóðlegum varnarmálum, heldur virkur þátttakandi í öryggissamstarfi sem þjónar bæði okkur og bandamönnum okkar?“
Bjarni bendir svo á að við verjum háum fjárhæðum í ýmsa innviði samfélagsins. „En er ekki kominn tími til að spyrja: Hvað kostar að tryggja raunverulegt öryggi? Hvað kostar að gera það ekki?“
Bjarni hafnar því að það að efna til slíkrar umræðu sé merki um einhvers konar stríðsæsing. Það sé miklu fremur merki um raunsæja sýn á hlutverk ríkisins í nútímanum.
„Öryggismál eru ekki einangruð við hernað – þau snúast um getu samfélagsins til að verja sjálfstæði sitt, stjórnmálakerfi sitt og daglegt líf borgaranna fyrir utanaðkomandi ágangi. Til að slíkt sé mögulegt þarf að skapa meðvitaðra samfélag um mikilvægi varnar- og öryggismála og hvernig Ísland getur tryggt framtíðaröryggi sitt. Íslenskt samfélag verður að vera virkara þegar kemur að varnar- og öryggismálum. Það er ekki nóg að treysta á gömul viðhorf – samfélagið þarf að horfast í augu við óþægilegar staðreyndir.“
Bjarni segir að lokum að íslensk öryggisumræða hafi um of einkennst af því að forðast þá staðreynd að smáríki séu ekki undanskilin alþjóðlegum ógnum af mannavöldum. Rökræða og gagnrýnin hugsun séu nauðsynlegar til að hrista samfélagið upp, jafnvel þó umræðan geti verið óþægileg, óvinsæl og vakið sterkar, jafnvel sárar, tilfinningar. Hún sé samt nauðsynleg.
„Þeir sem kjósa að loka augunum fyrir veruleikanum þurfa að horfast í augu við staðreyndina: Öryggisógnir eru ekki ímyndaðar – þær eru raunverulegar. Spurningin er ekki hvort Ísland þurfi að bregðast við, heldur hvenær á að gera það. Spurningin sem við stöndum frammi fyrir er einföld: Ætlum við að bregðast við núna eða bíða eftir að við neyðumst til aðgerða?“