Fjallað er um þetta mál í Morgunblaðinu í dag og segir Einar í samtali við blaðið að erlendir þjófar hafi gert sig mjög gildandi á svæðinu í vetur. Kemur fram í frétt Morgunblaðsins að asískir ferðamenn séu algeng fórnarlömb og að þjófagengi frá Austur-Evrópu séu yfirleitt að verki.
Einar segir til dæmis að vasaþjófar hafi verið gripnir glóðvolgir fyrir rúmum mánuði þar sem þeir voru með krumlurnar ofan í tösku hjá ferðamanni.
„Hann snerist til varnar og það varð smá uppákoma á Hakinu vegna þessa. Þjófarnir komust undan, en ég gat skoðað myndefni og fékk lögreglan þær upplýsingar. Þegar við skoðuðum efnið betur sáum við að sami bíllinn hafði komið hér fjóra eða fimm daga í röð og alltaf á sama tíma,“ segir Einar við Morgunblaðið og bætir við:
„Það var eins og hann væri að stimpla sig inn til vinnu.“
Einar hvetur leiðsögumenn og bílstjóra sem eru í tengslum við ferðahópa að láta þá vita af stöðu mála.