Íris Helga Jónatansdóttir, sem níu manns hafa sakað um að eltihrella þau, steig fram í viðtali fyrr í vikunni og sagðist saklaus af öllum ásökunum. Tveir karlmenn, fjölmiðlamaðurinn Garpur Freyr Elísabetarson, og Sölvi Guðmundarson, greindu frá samskiptum sínum við Írisi Helgu í viðtali við Vísi. Dóttir Sölva, sem er undir lögaldri, og faðir hennar gáfu DV samþykki fyrir að birta hluta samskipta hennar við Írisi Helgu.
Sjá einnig: Fyrrum stjúpdóttir meinta eltihrellisins Írísar Helgu stígur fram – „Þessi hegðun hjá þér er ógeðsleg“
Í Heimildinni sem kom út í dag er greint frá því að Íris Helga hafi samþykkt og undirritað á þriðjudag að gangast undir nálgunarbann gagnvart Garpi. (Fréttin var síðar leiðrétt í vefútgáfu hennar þar sem fram kom að Írisi Helgu hefði verið boðið að skrifa undir nálgunarbann á þriðjudag, en væri ekki búin að skrifa undir skjal þar um). Daginn eftir mætti hún í viðtal í hlaðvarpsþættinum Fullorðins og sagðist saklaus af öllum ásökunum og neitaði að hafa átt nokkur samskipti við Garp, sagðist með hreint sakavottorð og að enginn hefði kært hana til lögreglu.
Nálgunarbannið sem Írisi Helgu býðst að undirrita er mildara, svokölluð Selfoss-leið. Brjóti einstaklingur gegn slíku nálgunarbanni eru engin viðurlög við því að brjóta nálgunarbannið, en slíkt brot auðveldar brotaþola að fá hefðbundið nálgunarbann samþykkt af dómara.
Heimildin segir þrjá hafa kært Írisi Helgu til lögreglu fyrir umsáturseinelti. Um er að ræða Garp og Sölva sem stigu fram í viðtalinu við Vísi, auk þess að skrifa opinberar færslur á samfélagsmiðlum. Þriðji maðurinn hefur beðið undan viðtali. Allir mennirnir segjast hafa átt stutt kynni við Írisi Helgu, og eftir að upp úr sambandinu slitnaði verið í kjölfarið ofsóttir af fölskum reikningum á samfélagsmiðlum. Mennirnir greina einnig frá skemmdarverkum á eignum sínum.
Heimildin segist einnig hafa upplýsingar um að einn maður hafi verið handtekinn í febrúarárið 2024 fyrir að taka þátt í umsáturseineltinu sem Íris Helga er kærð fyrir. Gögn benda til þess að hann hafi verið blekktur af Írisi Helgu og talið hana ofsótta af manninum, sem baðst undan viðtali.
Að kröfu lögreglu afhenti Íris Helga öll raftæki sín í byrjun síðasta árs og þar sáust samskipti hennar við vin sinn, sem var síðar handtekinn. Myndbandsupptökur sýndu mann, sem hafði hulið andlit sitt, maka kattaskít á hurðarhún á heimili mannsins sem beðist hefur undan að vera nafngreindur. Af samskiptum Írisar Helgu og vinar hennar er ljóst að hann trúði því að maðurinn væri að ofsækja hana og taldi sig því vera að hefna fyrir í hennar þágu og í fullum rétti til þess.
Eins og áður kom fram neitaði Íris Helga öllum ásökunum í viðtali í Fullorðins og sagðist saklaus af öllum ásökunum og hreinlega ekkert skilja hvað mönnunum sem og öðrum gengi til með þessum ásökunum. Búið væri að taka af henni bæði vinnu og mannorð.
Eins og kom fram í DV í gær hefur áreiti Írisar Helgu beinst gegn barni eins mannsins, barni sem er undir lögaldri. DV hefur undir höndum mun fleiri samskipti milli hennar og stúlkunnar.
Sjá einnig: Fyrrum stjúpdóttir meinta eltihrellisins Írísar Helgu stígur fram – „Þessi hegðun hjá þér er ógeðsleg“
Rannsókn lögreglunnar á Suðurnesjum í málinu mun ljúka innan skamms.
Uppfært kl. 16.07:
Í frétt Heimildarinnar sem birtist í blaði og á vef miðilsins í dag kom fram að Íris Helga hefði undirritað nálgunarbann gegn Garpi.
Heimildin hefur síðar leiðrétt frétt sína á vefnum, þar sem kom í ljós að misskilningur var milli Garps og lögmanns hans um skjalið varðandi nálgunarbannið.
Hins vegar mun skjalið vera tilbúið og Írisi Helgu var boðið á þriðjudag að gangast undir nálgunarbann gagnvart Garpi. Tilboðið var lagt fram áður en hún fór í viðtal í hlaðvarpsþættinum Fullorðins. Íris Helga hefur ekki undirritað nálgunarbannið, en eins og áður kom fram sagðist hún saklaus af öllum ásökunum í viðtalinu.
Í leiðréttingu Heimildarinnar í veffréttinni stendur orðrétt:
Í fyrstu útgáfu fréttarinnar, sem birtist sömuleiðis í blaðinu, kom fram að Íris Helga hefði undirritað nálgunarbann gagnvart Garpi. Það reyndist rangt og má rekja til misskilnings milli þolanda og lögmanns vegna málsins. Lesendur eru beðnir afsökunar á þessu. Hinsvegar liggja fyrir drög um nálgunarbann kennd við Selfoss-leiðina svokölluðu. Írisi hefur verið boðið að undirrita slíkt nálgunarbann en ekki fallist á það, þegar þetta er skrifað.
DV hefur leiðrétt fréttina samkvæmt ofangreindu.