Landsréttur staðfesti á fimmtudag dóm fyrir konu sem dæmd var í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir hlutdeild í stórfelldu fíkniefnabroti. Meðákærði hafði verið dæmdur í átta mánaða fangelsi, óskilorðsbundið.
DV fjallaði um ákæruna yfir parinu í lok sumars árið 2023: Manninum var gefið að sök að hafa keypt 776 stykki af MDMA-töflum í gegnum Whatsapp og greitt fyrir efnin með Bitcoin að verðmæti 150.000 krónur. Fíkniefnin voru send með póstsendingu frá Hollandi til Íslands en sendingin var stíluð á sambýliskonu mannsins, sem var líka ákærð. Fíkniefnin fundust við eftirlit tollvarða í póstmiðstöðinni á Stórhöfða. Lögregla lagði hald á fíkniefnin og rannsakaði þau en kom þeim síðan fyrir á pósthúsinu við Hagatorg. Sambýliskonan fékk tilkynningu um afhendingu pakkans og ók parið saman í bíl að pósthúsinu, þar sem konan sótti pakkann og mannninum hann í bílnum. Var fólkið handtekið í kjölfarið.
Í dómi Landsréttar segir meðal annars um málsvörn konunnar og málsatvik:
„Fyrir Landsrétti rakti ákærða meðal annars atvik þar sem meðákærði hefði verið ógnandi við hana, sett hníf að hálsi hennar og lagt á hana hendur. Eftir það hefði hún ákveðið að gera allt sem hann segði. Hann hefði stjórnað öllu hennar lífiog hún verið mjög hrædd við hann. Hún áréttaði að hún hefði margoft neitað honum um að nota nafn hennar á póstsendinguna sem um ræðir og sagði hann aldrei hafa nefnt að hún innihéldi fíkniefni heldur að um væri að ræða stera. Þegar þau hafi verið á leiðinni að sækja sendinguna hefði hún fengið þá tilfinningu að ekki væri um stera að ræða en ákveðið að trúa meðákærða. Spurð út í afdrif þeirrar kæru sem hún lagði fram vegna heimilisofbeldis sagðist hún halda að málið hefði verið fellt niður. Ákærða lýsti því einnig meðal annars að áður en hún sótti póstsendinguna hefði meðákærði staðið yfir henni meðan hún borðaði morgunmat og líkamstjáning hans sagt henni að nú væri hún að fara út. Loks lýsti ákærða stöðu sinni í dag og því að málið hefði reynst sér mjög erfitt.“
Sem fyrr segir staðfesti Landsréttur skilorðsbundinn dóm héraðsdóms yfir konunni en hún þarf auk þess að greiða rúmlega eina milljón króna í áfrýjunarkostnað.