Diljá Mist skrifar grein um þetta í Morgunblaðið í dag þar sem hún varpar ljósi á sorglega stöðu.
„Níu ára dóttir mín mælti sér á dögunum mót við vinkonu sína sem býr í Breiðholti. Var ákveðið að vinkonurnar myndu verja deginum hjá okkur í Grafarvoginum, enda foreldrar vinkonunnar uggandi yfir stöðunni í hverfinu sínu og illa við að senda börn ein út að leika sér um þessar mundir. Nú er staðan því orðin þannig í sumum hverfum borgarinnar að börn eru þar ekki frjáls eins og verið hefur frá því að hverfin byggðust. Það er sorgleg staða sem verður vonandi til þess að vekja suma, sem lifa í bergmálshelli, vörðuðum af eigin góðmennsku, af værum svefni,” segir hún í grein sinni.
Diljá bendir á að nýlega hafi dómsmálaráðherra mælt fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum varðandi farþegaupplýsingar í tengslum við landamæri Íslands.
„Aðdragandi þess er að örfá flugfélög innan Evrópusambandsins hafa þráast við að afhenda íslenskum stjórnvöldum þessar upplýsingar í trássi við íslensk lög. Undirrituð tók málið m.a. upp sem formaður utanríkismálanefndar og óskaði eftir skýrslugjöf af hálfu dómsmálaráðuneytisins fyrir nefndinni,“ segir Diljá.
Í umræðum um frumvarpið kveðst hún hafa lagt áherslu á að stjórnvöld tryggðu að erlend flugfélög sem fljúga hingað framfylgdu þeirri ótvíræðu lagaskyldu sinni að afhenda farþegaupplýsingar.
„Þrátt fyrir að málflutningur ráðherrans væri að markmiðið væri að efla landamæraeftirlit og löggæslu hafði ég áhyggjur af því að með frumvarpinu væri verið að takmarka heimildir stjórnvalda innan núgildandi laga til þess að afla upplýsinga um farþega sem hingað koma. Ráðherrann meðtók áhyggjur undirritaðrar og frumvarpið er nú komið til meðferðar allsherjar- og menntamálanefndar sem mun vafalaust kafa ofan í málið. Þeim spurningum er þó ósvarað hvernig langsamlega flest flugfélög innan ESB geta afhent okkur þessar upplýsingar möglunarlaust,“ segir hún.
Diljá segir það frumskyldu stjórnvalda, líka Reykjavíkurborgar, að tryggja öryggi borgaranna.
„Von mín er því sú að breyting verði gerð á lögum til að efla landamæraeftirlit og löggæslu, eins og stefnt er að, og stoppað verði enn frekar í götin. Stjórnvöld Reykjavíkurborgar hafa sömuleiðis brugðist íbúum í Breiðholti og öðrum hverfum borgarinnar. Þar hefur öryggið alls ekki verið nægjanlega tryggt. Það er fráleitt að bera það á borð að sum börn hafi ríkari rétt til skólagöngu en önnur. Það eru mikilvæg skilaboð að dómsmálaráðherra taki undir með forvera sínum um að hægt verði að afturkalla alþjóðlega vernd þeirra sem hér brjóta af sér. Þá hefur undirrituð lagt fram frumvarp um sviptingu íslensks ríkisborgararéttar vegna alvarlegra afbrota,“ segir Diljá og bætir við að lokum:
„Skilaboðin eru skýr: hér skuli allir fara eftir meginreglum og –gildum íslensks samfélags. Þeir útlendingar sem ógna stöðu okkar sem eins öruggasta og friðsælasta lands í heimi eiga litla samleið með íslensku samfélagi. Það er víst nóg af stöðum í heiminum þar sem þeir geta fundið meiri samleið með sínum viðhorfum.“