Óprúttinn tölvuþrjótur náði að búa til falska atvinnuauglýsingu hjá atvinnumiðluninni Alfreð og komst þar yfir persónuupplýsingar fjölda atvinnuumsækjenda. Alls bárust svindlaranum 53 umsókni sem viðkomandi reyndi síðan að nýta sér með því að hafa samband við atvinnuleitendurna í gegnum smáforritið Whatsapp og reyna að fá enn viðkvæmari upplýsingar uppgefnar. Starfsfólk Alfreð brást hratt við þegar blekkingarleikurinn kom í ljós og varaði umsækjendur við svindlaranum. Hefur fyrirtækið breytt ferlum svo að eitthvað þessu líkt endurtaki sig ekki.
Umrædd auglýsing, sem birtist fyrir viku, snerist um starf hjá alþjóðlegu fyrirtæki í póstþjónustu sem leitaði að „metnaðarfullum og þjónustulunduðum einstaklingi“ sem átti að annast samskipti við viðskiptavini á Íslandi. Í boði væru góð laun eða allt að 1 milljón á mánuði, sveigjanlegur vinnutími og möguleiki á frekari frama innan hins alþjóðlega fyrirtækis. Engar menntunarkröfur voru gerðar en hins vegar var beðið um framúrskarandi íslenskukunnáttu og góða tölvukunnáttu.
Auglýsingin leit því út fyrir að vera mjög raunveruleg en staðreyndin var sú að á bak við hana var tölvuþrjótur sem hafði með blekkingum náð að koma henni á skrá atvinnumiðlunarinnar.
„Óprúttinn aðili skráði fyrirtæki á vef Alfreðs án þess að hafa tengsl við fyrirtækið eða heimild til þess að skrá það. Í gegnum þessa fölsuðu skráningu birtist atvinnuauglýsing á vefsíðu og í appi Alfreðs. Í framhaldinu hófust samskipti við umsækjendur sem voru fljótlega beðnir um að færa samskiptin yfir á WhatsApp þar sem umsækjendur voru beðnir um frekari upplýsingar. Sambærilegt atvik hefur ekki komið upp áður,“ segir í skriflegu svari frá fyrirtækinu.
Þegar upp um blekkingarnar komst var þegar lokað á hinn falska aðgang, auglýsingin tekin út og allir þeir sem sótt höfðu um starfið fengu tilkynningu um svikin.
„Í kjölfar þessa atviks gerðum við breytingar á skráningarferli fyrirtækja. Framvegis þurfa einstaklingar að auðkenna sig með rafrænum skilríkjum og hafa prókúruumboð til þess að nýskrá fyrirtæki,“ segir í fyrrnefndu svari frá Alfreð.
Það er svo áréttað að fyrirtækið leggi höfuðáherslu á öryggi og traust notenda en þeir séu hins vegar hvattir til þess að sýna aðgát og tilkynna strax ef þeir verða vitni að grunsamlegu athæfi.