Þetta segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra og formaður Viðreisnar, á Facebook-síðu sinni. Móðir hennar, Katrín Arason, var fædd þann 12. desember árið 1926.
„Við Kaja ræddum það gjarnan hversu lánsamar við vorum með foreldra. Ástrík, umvefjandi, hvetjandi. Voru ófeimin alla tíð við að segja að þau elskuðu okkur,“ segir Þorgerður sem vísar til systur sinnar, Karitasar H. Gunnarsdóttur, sem lést árið 2022.
„Mamma tók utan um okkur öll. Með mestu seigluna og styrkinn þegar á þurfti að halda. Var okkar stoð og stytta. Sagði okkur alltaf að halda áfram. Vera sjálfstæðar. Sýndi umburðarlyndi og hló að bullinu í okkur. Svo var það þessi endalausa hlýja, eiginlega áþreifanleg ást. Og það sem hún var stolt af barnabörnunum sínum og öllu því sem þau tóku sér fyrir hendur.“
Þorgerður rifjar upp fleiri minningar af móður sinni í færslunni.
„Ég skreið alla tíð upp í til mömmu. Er ófeimin að viðurkenna það. Það gerði ég líka í morgun og hélt utan um hana eins og hún gerði allt mitt líf. Ég sakna þeirra allra, litlu fjölskyldunnar minnar, en mikið er undurgott að vita af þeim saman. Við hin höldum að sjálfsögðu áfram. Mamma hefði ekki viljað hafa það öðruvísi,“ segir Þorgerður og endar færslu sína á þessum orðum:
„Starfsfólki Hrafnistu á Ölduhrauni vil ég þakka fyrir mikla umhyggju, greiðasemi og fallegt utanumhald. Það hefur verið ómetanlegt.“