Fréttastjóri RÚV, Heiðar Örn Sigurfinnsson, birti fyrr í dag skoðanagrein á Vísi þar sem svarar fyrir fréttaflutning RÚV um mál Ásthildar Lóu Þórsdóttur, fyrrum mennta- og barnamálaráðherra. Sneri fréttaflutningurinn um Ásthildi Lóu og barnsföður hennar, sem var 16 ára, þegar sonur þeirra fæddist árið 1990. Ásthildur Lóa var þá 23 ára.
Heiðar Örn birti orð sín einnig í færslu á Facebook með fyrirsögninni: Lýðræðið deyr í myrkrinu. Segir hann það miður að sjá ófrægingarherferðir á hendur blaðamönnum ná útbreiðslu á samfélagsmiðlum á meðal fólks sem á að vita betur. Fréttamaður RÚV, sem flutti fréttina þann 20. mars síðastliðinn hafi orðið fyrir rætnu og persónulegu áreiti vegna fréttarinnar.
„Árásir sumra stjórnmálamanna og skipulögð dreifing falsfrétta hafa miðað að því að grafa undan trausti almennings á hefðbundnum fjölmiðlum og í mörgum tilvikum hefur það tekist. Blaða- og fréttamenn um allan heim finna þetta á eigin skinni, og þurfa í seinni tíð að verjast rætnum, persónulegum árásum og jafnvel ógnunum vegna starfa sem áður þóttu sjálfsögð,“ segir Heiðar Örn, sem segir það eiga að vera sjálfsagt að segja fréttir í lýðræðissamfélögum, einkum af þeim sem fara með völd í krafti embætta sinna eða auðæfa.
„Eitt mikilvægasta verkefni fjölmiðla er að halda almenningi upplýstum um athafnir kjörinna fulltrúa og annarra embættismanna, veita þeim aðhald og spyrja þá erfiðra spurninga. Verkefnið hefur alltaf verið vandasamt, erfitt og vanþakklátt, en fáist enginn til að taka það að sér, og gera það vel, þá fellur myrkrið á. Lýðræðið þrífst ekki án þess.“
Bendir Heiðar Örn á að hérlendis starfi fáir fréttamiðlar og starfandi blaðamönnum hafi fækkað til mikilla muna. Það leggi enn ríkari ábyrgð á herðar blaðamanna sem eftir eru að þeir standi sig og sinni störfum sínum af heilindum. Segir Heiðar Örn fréttastofu RÚV hafa verið sakaða um ýmsar rangfærslur í fréttinni en engin þeirra hafi staðist skoðun.
Grein Heiðars Arnars má lesa í heild sinni hér.
Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, upplýsingafulltrúi Íslenskrar erfðagreiningar og fyrrum blaðamaður, meðal annars á RÚV, spyr hvaða hagsmunir almennings kröfðust þess að vera upplýstir um einkamál Ásthildar Lóu Þórsdóttur, fyrrum mennta- og barnamálaráðherra og láta líta út fyrir að um lögbrot væri að ræða.
„Hvaða hagsmunir almennings kröfðust þess að frétt um einkalíf ráðherra fyrir 35 árum væri sögð á þennan hátt og látið líta út fyrir að um gróft lögbrot væri að ræða sem fangelsisrefsing lægi við? Hvað gengur fréttastofunni til að gera sig að dómara i einkalífi konu á þennan hátt og láta liggja að því á villandi hátt að hún sé lögbrjótur,“
skrifar Þóra Kristín í færslu sinni á Facebook þar sem hún deilir grein fréttastjóra RÚV.
Þóra Kristín bendir á að barnsfaðir Ásthildar Lóu hafi sjálfur komið fram og sagt fréttaflutning í óþökk sinni og hann liti ekki á sig sem fórnarlamb í málinu.
„Hann breytti því í viðtali við annan fjölmiðil og sagðist þá þakklátur fyrrum tengdamóður sinni fyrir að hafa opnað á málið. Ráðherranum var kunnugt um allan daginn að málið væri á leið í fréttatíma RÚV og þar með alla fjölmiðla og sagði því af sér til að skapa frið, væntanlega bæði fyrir sig og ríkisstjórnina. Það er margt sem fólk blygðast sín fyrir í eigin lífi og vill ekki viðra opinberlega sem á þó ekki að bitna á hæfi til að gegna opinberu embætti,“ segir Þóra Kristín og vísar næst til orða Heiðars Arnars:
„Árásir sumra stjórnmálamanna og skipulögð dreifing falsfrétta hafa miðað að því að grafa undan trausti almennings á hefðbundnum fjölmiðlum og í mörgum tilvikum hefur það tekist.“
Þóra Kristín segir margt til í þeim orðum hans, en það eigi bara ekki við um þetta mál.
„Þetta er miklu frekar falsfrétt sem er dreift af pólitískum andstæðingum til að ófrægja konu í valdastöðu. Fréttastofan fór í þessu tilfelli illa með vald sitt sem felst í því að setja mál á dagskrá í opinberri umræðu. Það er mjög miður, Ég starfaði við fjölmiðla í nær 30 ár og þar á meðal RÚV. Ég lít ekki á mig sem óvin fjölmiðla þótt ég ætli ekki að kvaka með þessum meðvirkniskór í þessu máli.“
Segir Þóra Kristín að sér þyki mjög vænt um fréttastofuna og marga þar. „Mér finnst að í þessu máli ætti hún að líta í eigin barm. Það er mjög mikið undir, ekki bara traust til fjölmiðla, heldur líka öryggi borgaranna í því ofbeldisfári sem geisar.“
„Hér á Íslandi sé staðan orðin sú, að sárafáir fréttamiðlar séu eftir uppistandandi, og starfandi blaðamönnum hafi fækkað til mikilla muna,“ segir Heiðar Örn og bætir við: Það leggi enn ríkari ábyrgð á herðar þeirra sem eftir eru að þeir standi sig og sinni störfum sínum af heilindum.“
Það má svo sannarlega taka undir þetta og biðja fréttastofuna að fara á undan með góðu fordæmi og sýna mennsku í umfjöllun sinni og beina henni að raunverulegum hagsmunum almennings eins og hún gerir stundum svo vel.“
Össur Skarphéðinsson, skrifar athugasemd við færslu Heiðars Arnars. Össur hefur langa reynslu bæði á sviði blaðamennsku og fjölmiðla. Hann var ritstjóri Þjóðviljans árin 1984-1987, Alþýðublaðsins 1996–1997 og DV 1997–1998. Hann var þingmaður fyrir Alþýðuflokk og síðar Samfylkinguna samfleytt árin 1991-2016 og umhverfisráðherra 1993-1995, iðnaðarráðherra 2007-2009 og utanríkissráðherra 2009-2013.
Össur segist þekkja sjálfur sem fyrrum ritstjóri þriggja dagblaða þráteflið við tímann þegar skil (e. deadline) nálgast.
„Ekki kemur mér til hugar að fréttamennirnir sem unnu fréttina, Sunna Karen og Helgi Seljan, hafi gert það af einhverjum annarlegum hvötum. En ég tók andköf undir fréttaflutningnum, og RÚV skildi mig eftir með þann skilning að ráðherrann hefði brotið lög, hennar biði hugsanlega fangelsisvist, og hún væri barnaperri, eða glæpon af þeirri sortinni sem við síst viljum. Svo var um þúsundir fleiri hlustenda.
Fréttin skapaði hjá mér mjög neikvæðar tilfinningar í garð Ásthildar Lóu, sem ég svo skammaðist mín fyrir þegar fleiri upplýsingar komu fram. Svo var áreiðanlega um mun fleiri,“ segir Össur.
Össur snýr sér næst að þeim hörðu viðbrögðum sem RÚV hefur fengið vegna fréttaflutningins og segir hann fólk skiptast í tvo hópa. Segir hann RÚV hafa misst traust vegna málsins og lítið gert til að útskýra fréttaflutninginn:
„Hin hörðu viðbrögð við RÚV stafa annars vegar frá þeim sem vilja helst sjá RÚV fara til fjandans og svo frá okkur hinum, sem þykir vænt um RÚV, höfum alltaf borið til þess traust og fannst skyndilega sem við stæðum á tæpu skæni í því efni.
RÚV hefur misst mikið traust vegna þessa máls og hefur ekki reynt að koma til móts við hina vonsviknu stuðningsmenn með neinum útskýringum öðrum en þeim sem komu fram í viðtali við Sunnu, máli fulltrúa RÚV í Silfrinu og svo þessari grein þinni. Þær útskýringar má draga saman í eftirfarandi: „Við gerðum allt rétt“. – En þúsundir gamalla stuðningsmanna RÚV eru á öðru máli, og hressilega hefur sneiðst um torfuna sem það stendur á. Vinur er sá er til vamms segir.“