Gjörningur sem tónlistarmaðurinn og varaþingmaður Samfylkingarinnar, Birgir Þórarinsson (Biggi Veira) framdi í gær, vakti athygli. Biggi skildi heimilissorp sitt frammi í anddyri Ríkisútvarpsins við Efstaleiti. Hann birti af þessu myndband á Facebook-síðu sinni og skrifaði:
„Skutlaði heimilissorpinu niðrá fréttastofu RÚV. Rúv er samt ekki merkt sem móttökustöð á sorpa.is enda eru þau hrifnust af óflokkuðu sorpi. Þau vilja ólm fá meira.
Hægt að skutla inní anddyrið eða skilja eftir fyrir utan. Það kemst til skila.
Grófari úrgangur fer ennþá uppá Morgunblað.“
Biggi var þarna að mótmæla fréttaflutningi RÚV af gömlum ástarmálum fráfarandi mennta- og barnamálaráðherra, Ásthildar Lóu Þórsdóttur.
Alma Mjöll Ólafsdóttir, fyrrverandi blaðamaður á Heimildinni, er ekki hrifinn af þessi framtaki og telur hegðun Bigga óboðlega, ekki síst af því hann er varaþingmaður.
„Mér finnst þessi gjörningur ekkert fyndinn, ekkert sniðugur, ekkert legendary og ekki kúl.
Ég þakka þó fyrir það að það sé ekki hægt að fara lengra en í anddyrið á RÚV, að það hafi ekki verið hægt að fara með þetta inn á fréttastofu, þangað sem varaþingmaður ætlaði þessu að fara.
Mér finnst ekki boðlegt að blaðamönnum séu send þessi skilaboð, hvað þá frá varaþingmanni. Mér er alveg sama hvaða flokki téður varaþingmaður er í. Ég geri ríkari kröfur til þing-og varaþingmanna en ég geri til almennings og það er eðlilegt.
Það er búið að vera galið að fylgjast með þessari umræðu um Rúv í kjölfar þessa fréttaflutnings. Ég skil ekki hvert fólk er að ætla með þessar ásakanir. Ég skil ekki í hvaða samhengi hefði ekki átt að segja fréttir af þessu.“
Alma bendir á að RÚV hafi ekki bara verið að segja frá nánum kynnum Ásthildar og 16 ára unglings fyrir 35 árum heldur frá því að ráðherra hafi hringt í almennan borgara og farið heim til hans á kvöldi til.
„Í hvaða veruleika á ekki að segja fréttir af þessu ég skil þetta ekki. Heimili fólks er þeirra heilagasti griðarstaður,“ segir Alma. Sjálf segist hún þakka fyrir að fólk sem hún skrifaði gagnrýnið um hafi ekki mætt á vinnustað hennar til að gera lítið úr henni eða skilja eftir ruslapoka til merkis um að að sem hún skrifaði væri rusl. Alma segir ennfremur:
„Rúv hóf ekki þessa atburðarrás heldur sagði fréttir af atburðarrás sem var þegar farin af stað og þegar búin að hafa afleiðingar.“