Hæstiréttur hefur sýknað RÚV og MAST í máli sem fjárfestingarfélögin Bali og Geysir höfðuðu vegna Brúneggjamálsins svokallaða. Með þessu var dómi Landsréttar í tilfelli MAST snúið við.
Dómur var kveðinn upp í málinu í dag. En Bali og Geysir höfðu krafist skaðabóta vegna umfjöllunar Kastljóss um aðbúnað hænsfugla í búi Brúneggja þann 28. nóvember árið 2016. Í kjölfarið að þættinum hrundi sala fyrirtækisins og það fór í þrot.
Báðar stofnanir voru sýknaðar í héraði en Landsréttur taldi MAST skaðabótaábyrgt vegna afhendingar ákveðinna gagna til RÚV. Þessu sneri Hæstiréttur við í dag.
„Varðandi varakröfu á hendur Matvælastofnun vegna afhendingar stofnunarinnar á gögnum til Ríkisútvarpsins taldi Hæstiréttur umfjöllun stofnunarinnar og athugasemdir við starfsemi Brúneggja ehf. teljast vera gögn sem hefðu haft að geyma upplýsingar sem hefðu átt erindi til almennings. Matvælastofnun hefði því verið skylt að afhenda gögnin á grundvelli upplýsingalaga,“ segir í tilkynningu Hæstaréttar.
Bala og Geysi var gert að greiða MAST 3 milljónir króna og RÚV 5 milljónir í málskostnað.