Þetta segir Kristján Berg Ásgeirsson, oft kenndur við Fiskikónginn, í pistli á Facebook-síðu sinni. Þar gerir hann frumvarp um breytingar á veiðigjöldum að umtalsefni sem atvinnuvegaráðherra hefur kynnt.
Sitt sýnist hverjum um yfirvofandi breytingar. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi bera sig illa og segja samtökin að frumvarpið muni tvöfalda gjaldtöku á sjávarútveginn og valda auknum rekstrarerfiðleikum í greininni. Fiskvinnsla komi til með að flytjast úr landi, verðmætasköpun minnka, störfum í sjávarútvegi fækka og svo framvegis.
Atvinnuvegaráðherra og fjármálaráðherra segja greinina hins vegar vel ráða við breytingarnar og aðrir stjórnarliðar segja að samtökin hafi þegar hafist handa við að reka áróður gegn frumvarpinu.
Sjá einnig: Sjávarútvegurinn segir þungan róður framundan – Áróður segja stjórnarliðar
Kristján er fylgjandi því að setja allan fisk á markað og segir að það sé nú þegar búið að rústa flestöllum fiskvinnslum í landinu.
„Flestar stóru vinnslurnar hafa lagt upp laupanna, hætt. Tækin seld úr landi og þekking glatast. Takk fyrir það stjórnvöld undanfarna áratugi. Þetta eru bein áhrif af því stjórnkerfi sem hefur verið hér við lýði undanfarna áratugi. Íslensk útgerð hefur öll tromp á sinni hendi. Stjórna allri veiði og allri vinnslu. Nú þegar streymir fiskur „óunninn“ úr landi, bæði frá útgerðinni og líka frá þeim sem kaupa fisk af fiskmarkaðinum.“
Kristján segir að íslenskar konur hafi áður fyrr unnið mikið í fiskvinnslum landsins en nú séu breyttir tímar og meira og minna erlent vinnuafl vinni í fiskvinnslum hér á landi.
„Gott eða slæmt ? GOTT, það verður einhver að vinna fiskinn okkar. Útlendingarnir eru ekkert síðri en Íslendingarnir, jafnvel betri,“ segir hann og bætir við að ef útgerðin færir fiskvinnsluna úr landi tapi útlendingar störfum sínum í stórum mæli.
Að mati Kristjáns er það galið að flytja ferskan fisk sjóleiðina til annarra landa. Það sé best að vinna ferskan fisk hér á landi, pakka honum og koma honum sem fyrst í hendur neytenda sem vilja greiða hæsta verðið fyrir glænýja íslenska villibráð. Bendir hann á að það taki marga daga að flytja fiskinn sjóleiðina til annarra landa og fyrir vikið verði fiskurinn gamall og í verri gæðum sem skilar sér í lakara verði.
„Í dag fæst fiskur bara á fiskmarkaðinum á uppsprengdu markaðsverði. Vegna þess að þeir sem eiga meirihlutann í kvótanum, landa ekki fiskinum á fiskmarkaðinn, nema í litlu magni, örsjaldan. Þannig ef útgerðin hótar að hætta allri fiskvinnslu og ætlar sér að flytja allan fiskafla úr landi, þá væri kjörið fyrir ríkisstjórnina að krefjast þess að setja allan fiskafla á íslenska fiskmarkað, sem ætti löngu að vera búið að gera og vinna allan fisk hér á landi. Pakka og senda með flugi á okkar bestu markaði og reyna að fá hæsta verð.“
Kristján segir að hann hafi alltaf verið Sjálfstæðismaður, en þessi kvótaeign á höndum fárra aðila og gjaldtaka hafi aldrei verið honum að skapi.
„Það er líka hluti af klofningu sjálfstæðismanna. Ég hef verið Sjálfstæðismaður vegna þess að ég vill ÖFLUGT atvinnulíf, einkaframtak og kröftug sjálfstæð fyrirtæki,“ segir hann og nefnir að það sé bara fínt mál að þeir sem hafi farið í þetta kerfi hafi stórgrætt á því.
„Þeir mega græða, enda tóku þeir áhættuna. Íslenskt samfélag á kvótann, auðlindina, og það á að greiða sanngjarnt gjald til íslenska ríkisins,“ segir hann og bætir við að 15-20% af verðmæti aflans, miðað við markaðsverð, sé sanngjarnt.
„Hvað er markaðsverð? Það er verð sem er búið til á fiskuppboðsmarkaði. Vandamálið að fiskmarkaðsverð er rangt í dag, vegna þess að útgerðin landar litlu sem engu á fiskmarkaðinn, og þá er hærra verð á fiskmarkaði, vegna skorts á fiski þar,“ segir hann og viðurkennir að það sé ekki auðvelt að leysa þessa stöðu. Hér stefni þó í óöld varðandi fiskveiðistjórnunarkerfið og gjaldtökuna.
„Það er klárt. Ég hef alltaf verið fylgjandi kvótakerfinu sem slíku. En þegar kvótinn er kominn upp í 5-7000 kr. pr. kg, þá er greinilega eftir miklu að slægjast hjá þeim sem eru að kaupa kvóta og þeir ættu að geta greitt meira til samfélagsins. Það er mitt mat. Ég geri mjög sennilega marga brjálaða núna, en það verður bara að hafa það. Ég má hafa mína skoðun á þessu kerfi, rétt eins og þú hefur þína skoðun.“