Íris Helga Jónatansdóttir, sem sökuð hefur verið um að eltihrella minnst 9 manneskjur og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum, hafnar öllum ásökunum og segir mennina sem hafi sakað sig um slíkt í raun vera hina brotlegu. Íris Helga tjáir sig um ásakanirnar í viðtali við Kiddu Svarfdal í Fullorðins.
„Það sem hefur verið talað svolítið um er að þú hafir verið að segja að þú værir stjúpmamma, ættir þrjú börn og stjúpmamma barnanna hans, hvaðan heldurðu að þetta komi?“
Íris Helga segist ekki hafa heyrt þetta sjálf, aðeins lesið um það og ekki vita hvaðan það komi, hvort það sé frá nemendum komið eða annars staðar.
„Ég bað skólastjórann um staðfestingu, deildarstjórana alla, Ég hef bara góð meðmæli frá öllum, það hefur aldrei verið sett út á mig í vinnunni. Ég hef aldrei verið að áreita einn eða neinn, börn eða, þetta eru bara ógeðslegar ásakanir. Ég ætla ekki að sitja undir þeim, ég vil svara. Ég er með hreint sakavottorð, ég er ekki með neinar kærur á mig.“
Segir Íris Helga nýlega hafa sótt sakavottorð og finnast hún þurfa að sýna það hverjum sem vera vill. „Ég er saklaus, þetta er fáránlegt,“ segir Íris Helga.
Segist Íris Helga hafa fundið fyrir mikilli vanlíðan eftir að lesa um sjálfa sig í fjölmiðlum og þess vegna hafa leitað til geðlæknis, af því henni fannst hún þurfa á því að halda og spurt hvort hún gæti fengið geðmat.
„Ég hugsaði bara ég verð að gera þetta, fyrir mig og alla. Ég er ekki með neina geðröskun. Hann sagði mér að vanda betur fólkið í kringum mig.“
Í lýsingu Fullorðins á þættinum segir: Hinn manninn segir hún hafa leitað á tólf ára dóttur sína og misnotað. Myndband sem sýni hana fyrir utan heima hjá honum þar sem hún lætur öllum illum látum og sparkar í bíl hans hafi í raun verið tekið upp þegar hún hafi farið þangað til að ræða við hann um það mál. Hún vill meina að þetta sé rótin að því að fjöldi fólks hafi tekið sig saman um að reyna ná henni niður og að hún sé þannig fórnarlamb svæsinnar rógsherferðar.
„Ég er búin að fara í búð og var spurð hvort ég vilji kvittun. Og ég bara: „já ég vil kvittun, ég þarf sönnun um að ég hafi verið hérna.“ Af hverju þarf ég að gera þetta? Það á pottþétt einhver eftir að segja að ég hafi gert eitthvað þar. Þannig að ég er bara með fulla vasa af kvittunum.“
Íris Helga segir það hafa komið í ljós hjá lögreglu að B hafi verið í sambandi með fyrrum vinkonu hennar, sem er í dag í sambandi með C.
„Það er búið að finna gögn í tölvunni hjá B sem er hægt að tengja við þetta. Eina sem ég hugsa að hann hafi komið svona fljótt inn í líf mitt af því hann ætlaði að ná sér niðri á henni. Veit það ekki, það er allt ennþá í skoðun. Ég átti mjög óþægilegan vinahóp á þessu tímabili sem ég kúplaði mig alveg út úr. Ein þeirra er algjör naðra og svífst einskis, hún er bara þannig týpa. Hún segir líka að hún hafi slitið á samskipti við C, en ég sá þau í gær saman. Ósannindin eru endalaus. Ég er ekki dugleg að standa upp fyrir sjálfri mér, yfirleitt fer ég til baka og tala ekki fyrir sjálfa mig. Kannski þarf ég að velja betur fólk í kringum mig.“
Íris Helga segist með staðfestingu á því að engar kærur liggi fyrir á hana og segist hún með frábæran lögmann sem er stoð hennar og stytta í öllu.
„Ég er að fara í einkamál við A. Hann segir í einhverri grein: „Ég ætla ekki að fara í stríð við hana.“ En hann er heldur betur að fara í stríð við mig með því að nafngreina mig og bara, hann er að drepa mannorðið mitt. B hringdi í skólann sem ég var að vinna í í fyrra og er þar að ásaka mig um hitt og þetta. Þetta er Skarðshlíðarskóli og skólastjórinn þar ákveður að hlusta á ásakanir og lygar og segja mér upp. Ég fór í Kennarasambandið með það, ólögleg uppsögn og þetta er í vinnslu líka. Hann viðurkennir á Vísi að hann hafi hringt í skólann, þannig að það kom sér vel að hann viðurkennir þetta þar.
Um B segir Íris Helga að þar sé kæra til staðar. „Til dæmis heimilisofbeldi og alls konar svoleiðis, það liggur inn á borði, og áreiti.“
Aðspurð um hvað hún vilji segja við þá sem hafa verið að tala illa um hana og segja hluti sem eru ósannir segir Íris Helga:
„Fólk svífst einskis, það heyrir eina hlið og hún er eltihrellir og hitt og þetta. Það hefur aldrei komið fram að hann var að áreita dóttur mína, það er búið að koma heim og hóta mér fyrir framan lögreglu. Og móðursystirin er búin að kalla mig morðingja og skilaboðin sem maður er búin að fá þau eru ekkert falleg í minn garð frekar en það sem þau eru að fá. Ég er búin að afhenda öll gögn, það er búið að fara yfir það, ég veit ekki hvað ég á að segja fyrir sjálfa mig. Eina sem ég get sagt er þetta eru ósannindi. Ég hef aldrei fengið kvörtun yfir hvernig ég er í vinnunni. Ég vil ekki vera stimpluð sem geðsjúklingur eða eitthvað þannig.“
Aðspurð segist Íris Helga halda að B standi á bak við þetta.
„Lögfræðingurinn minn er búinn að hafa samband við hann. Hann er ekki með lögmann, hann er bara að kasta einhverju út. Eins og hann sagði: „Það hættir enginn með mér.“ Ég held honum finnist þetta bara gaman. Hann er bara siðblindur. Ég er meira að segja með skjáskot frá æskuvinkonu hans þar sem hún segist hætt að taka mark á honum af því að allar fyrrverandi eru geðveikar. Fyrrverandi á undan mér var geðveik af því hún var að saka hann um ofbeldi. Ég komst sjálf að því, ég var öll marin og blá eftir hann af því hann var að beita ofbeldi. Þetta er rosalega óþægilegt, þetta er lítið bæjarfélag, lítið samfélag og margir búnir að koma til mín: „Sorrí við dæmdum þig.“
Íris Helga segir síðustu vikur hafa einkennst af vonleysi og vanlíðan. Hún hafi stigið til hliðar og einbeitt sér að því að hugsa um börnin sín.
„Ekkert af þessu gerðist. Að lesa um sjálfan sig lygar og geta ekki sagt neitt, það er ekki góð staða. Það er ömurlegt. Ég held það sé ekki beinn ásetningur frá A, ég held þetta sé bara komið frá B. Ég er með staðfest að A vill ekki gera neitt úr þessu, vill ekki gera mál úr þessu. En hann sendi mér samt þessa hótun.“
Hvað stóð í hótuninni?
„Það stóð eitthvað; „ég er kominn með nóg af þessu. Ég gef þér fimm mínútur til að eyða þessu út, annars mun ég kasta öllu út. Og ég mun kommenta undir allt.““
Hverju var hann kominn með nóg af?
„Áreitinu greinilega eða einhverju.“
Íris Helga segist ekki standa á bak við áreitið og ekki að búa til falska aðganga á Facebook.
„Ég er líka búin að verða fyrir þessu áreiti og eiginlega skil ekki af hverju hann er að gera sig að þessu fórnarlambi. Þetta eru ljótar ásakanir, ljótar og þungar ásakanir. Ég vil bara að sé leiðrétt að ég er ekki einhver barnaníðingur og einhver geðsjúklingur. Það er svona aðallega mannorðið mitt sé, laga mannorðið, koma því aftur á….svo veit maður ekki hvernig það virkar, fólk er svo ógeðslega dómhart, dómstóll götunnar.“
Íris Helga nafngreinir engan hér að ofan, en kvikmyndagerðarmaðurinn Garpur Elísarbetarson Ingason er einn þeirra sem hafa sakað hana um að eltihrella sig. Sagði hann konuna hafa eltihrellt sig í um eitt ár og hafi nýlega byrjað að áreita dóttur hans. Sölvi Guðmundarson er einn þeirra sem hafa stigið fram á Facebook og tjáð sig um áreiti, netníð og umsáturseinelti af hálfu Írisar Helgu.
Sjá einnig: Garpur:„Þetta er það erfiðasta sem ég hef gengið í gegnum“
Sjá einnig: Kona frá Reykjanesbæ sökuð um svæsið umsáturseinelti – „Ég er einn þeirra sem kærðu ásamt dóttur minni“