Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og Starfsgreinasambandsins, vill að stjórnvöld láti koma á fót þingnefnd til að rannsaka hversu mikið hafi verið stolið af íslenskum sjómönnum á liðnum árum. Ljóst sé að verð uppsjávarafla hafi um áratugaskeið ekki endurspeglað markaðsverð.
„Jæja loksins kom að því en núna hafa stjórnvöld sannað það sem við í stéttarfélögunum höfum sagt um áratugaskeið að verð á uppsjávarafla til íslenskra sjómanna endurspeglar alls ekki hið raunverulega og rétta markaðsverð,“ segir Vilhjálmur í færslu á samfélagsmiðlum. Það er vegna tilkynningar stjórnvalda um tvöföldun veiðigjalda.
Hafi komið fram í máli fjármálaráðherra að skoðun hafi leitt í ljós að munurinn á aflaverði væri mjög mikill milli Íslands og Noregs, mun meiri en hægt sé að skýra með stærðar-eða gæðamun. Verð væri hærra um 58 prósent í síld, 15 prósent í kolmunna og 124 prósent í makríl.
„Já sjómenn hafa í áratugi kallað eftir að rétt skuli vera rétt og hafa ítrekað bent á að verið sé að stela af sjómönnum gríðarlegum fjármunum í ljósi þess að margar útgerðir eru með veiðar og vinnslu á sömu hendinni og útgerðin getur því ákveðið fiskverðið sjálft,“ segir Vilhjálmur í færslunni. Verð uppsjávarafla sé á bilinu 15 til 124 prósentum minni hér en í Noregi.
„Mitt mat er að eftir að stjórnvöld hafa komist að þessari niðurstöðu, að verð á uppsjávarafla sé alls ekki að endurspegla rétt markaðsverð þá kalli það á að skipuð verði nefnd af hálfu Alþingis sem rannsaki hversu mikið er búið að stela af íslenskum sjómönnum á liðnum árum og áratugum í ljósi þessara staðreynda,“ segir Vilhjálmur. „Munum að það er ekki bara verið að stela af sjómönnum heldur einnig af sveitarfélögum sem verða af umtalsverðum útsvarstekjum þegar ekki er verið að greiða sjómönnum rétt markaðsverð.“
Hafi hann skrifað um þetta í ófá skipti en nú hafi stjórnvöld látið óháðan erlendan aðila rannsakað málið og þetta sé niðurstaðan. Nú þurfi að láta kné fylgja kviði og leiðrétta laun sjómanna sem hafi verið höfð af þeim með ólögmætum og óréttlátum hætti.
„Ég tek því undir orð fjármálaráðherra, rétt skal vera rétt. Og ég trúi ekki öðru en að ríkisstjórn sem kennir sig við félagshyggju, jöfnuð og réttlæti hjálpi sjómönnum að ná fram réttlæti í þessu máli,“ segir Vilhjálmur að lokum. „Það er ekki nóg fyrir stjórnvöld að tryggja sig í gegnum löggjafavald sitt er lýtur að ríkissjóði og skilja sjómennina eftir áfram á kolröngu fiskverði. Ítreka því: Rétt skal vera rétt, líka gagnvart sjómönnum.“