fbpx
Miðvikudagur 26.mars 2025
Fréttir

Telja að valkyrjurnar hafi hlaupið á sig og efa að Ásthildur snúi aftur á þing – „Ég horfi bara á bugaða manneskju“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 25. mars 2025 12:05

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrrverandi þingmennirnir Páll Magnússon og Vigdís Hauksdóttir eru sammála um að mál Ásthildar Lóu Þórsdóttur hafi ekki gefið tilefni til afsagnar. Ríkisstjórnin hafi hlaupið á sig í málinu og hefði átt að vanda sig betur og standa betur með Ásthildi. Þau segja ljóst að málið liggi þungt á fyrrverandi ráðherranum og kæmi það þeim ekki á óvart ef Ásthildur ákveður að snúa ekki til baka á þing. Þetta kom fram á Bítinu á Bylgjunni í morgun.

„Málið hefur breyst mjög mikið og það sem var sett fram í upphafi hjá RÚV, það hefur að mestu leyti hrunið til grunna. Allar jólakúlurnar eru dottnar af jólatrénu má segja,“ segir Vigdís en að hennar mati var meint tálmun það alvarlegasta sem fram kom í fyrstu frétt, en nú hefur sonur Ásthildar Lóu stigið fram og hafnað því að faðir hans hafi verið tálmaður.

„Það eina sem mér finnst standa eftir í þessu er dómgreindarleysi hjá þáverandi ráðherra að fara heim til konunnar og banka upp á hjá henni. Það finnst mér vera dómgreindarleysi. En það er alveg augljóst hvað hefur skeð. Hún hefur fengið veður af því að þetta ætti að fara í fréttaumfjöllun og þá er hún strax komin á undanhald, fær greinilega ekki stuðning innan ríkisstjórnarinnar, hjá sinni eigin ríkisstjórn, því það liggur fyrir að það er alveg sama hvað í pólitík, þá verður fólk að standa saman.“

Vigdís telur með öðrum orðum að Ásthildur hafi ekki fengið stuðning frá oddvitum ríkisstjórnarflokkanna og því gripið í það örþrifaráð að segja af sér. Vigdís tekur fram að lítið standi eftir af upphaflegum fréttaflutningi og það alvarlegasta í málinu sé að nú sé Ásthildur búin að segja af sér, mögulega af ósekju, og komin í veikindaleyfi frá þingstörfum. Vigdís segist efast um að Ásthildur snúi aftur. „Mér er stórlega til efs að Ásthildur Loga komi aftur til þings. Ég horfi bara á bugaða manneskju.“

Ekkert af því alvarlegasta átti við rök að styðjast

Páll Magnússon tekur undir með Vigdísi og segir að þegar hann las fyrstu frétt af málinu hjá RÚV hafi hugþrifin verið þrenns konar: að Ásthildur hefði átt barn með barni undir lögaldri, hún hafi verið í valdastöðu gagnvart barnsföður og svo að hún hefði tálmað umgengni. Tvennt af þessu sé búið að hrekja. Það megi sjá skýrt af Íslendingabók að barnsfaðirinn var 16 ára þegar barnið var getið og þegar það kom í heiminn og þar með sjálfráða samkvæmt þágildandi lögum. Ásthildur hafi eins ekki verið neinn umsjónarmaður eða leiðbeinandi í þessum söfnuði þar sem þau kynntust. Eftir standi meint tálmun en sú ásökun byggir á fullyrðingu barnsföðurs en bæði Ásthildur og sonur hennar hafa hafnað því að um tálmun sé að ræða. Páll segir því óljóst hvort hér hafi raunverulega verið um tálmun að ræða eða vanrækslu föðurins.

„Og það liggur þá fyrir að ekkert af því þrennu sem virtist alvarlegast í málinu við fyrstu fréttir átti við rök að styðjast. Með öðrum orðum, afsögnin af efnislegum ástæðum var hérna tilefnislaus og hefði ekki til hennar þurft að koma. Ég get hins vegar vel skilið þessa afsögn af persónulegum ástæðum af því að þarna var verið að fjalla um nánustu einkamál viðkomandi manneskju og hún hafði kannski engan áhuga á því að þau yrðu frekar dregin fram og til baka hér í opinberri umræðu. Þannig að af persónulegum ástæðum fyndist mér mjög skiljanlegt að hún hafi sagt af sér.“

Páll segist þó vona að Ásthildur hafi sagt upp að eigin frumkvæði en ekki vegna þrýstings frá oddvitum ríkisstjórnarflokkanna. Páll segist ekki vilja fordæma fréttaflutning af málinu en tekur fram að hér sé um að ræða viðkvæmt einkamál, ekki bara Ásthildar, heldur fjölskyldu hennar, sonar hennar og barnsföðurs hennar. Því hefði verið fullt tilefni fyrir fréttamenn að stíga varlega til jarðar og vanda sig frekar en að byggja fréttaflutning aðeins á lýsingu og upplifun barnsföður Ásthildar.

Atlaga úr launsátri

Vigdís segir að vissulega megi halda því fram að það sé óheppilegt að Ásthildur, með þetta mál í farangursgeymslunni, fari með málaflokk barna. En fordæmi séu fyrir því að ráðherrar færi málaflokka í önnur ráðuneyti eða skiptist á embættum. Telur Vigdís að það hefði verið farsælari lausn heldur en afdráttarlaus afsögn. Hún telur að ríkisstjórnin hafi hlaupið á sig og það sé merki um veikleika. Nú sé ríkisstjórnin að spila vörn þegar hún ætti frekar að vera í sókn.

„Það má alveg segja að þetta mál sé unnið úr launsátri, að rifja upp svona gamalt mál. Mér hefur aldrei komið það við hver sefur hjá hverjum. Þarna er komið í ljós að það var ekkert ólöglegt gert, sjáðu til. Við skulum líka ræða það að á þessum tíma þá var það bara mjög algengt að menn væru eldri en stúlkur og tíðarandinn þá. Ég tel að það sé ekki hægt að færa tíðarandann þá upp til ársins 2025. Ég er kannski bara svona rosalega gamaldags í hugsun. En ég sé þetta mál frá upphafi til enda sem eitt stórt klúður og undanhald.“

Páll segist ekki viss um að Ásthildur treysti sér aftur á þing. Hér hafi persóna hennar verið tætt sundur og saman og það hljóti að hafa áhrif. „Ég er ekki viss um að nokkur manneskja hafi gengið í gegnum slíkt, að minnsta kosti rekur mig ekki minni til þess, af jafn litlu tilefni og raunin varð.“

Ásthildur hafi þó sterkt umboð kjósenda sem vonandi standi áfram með henni. Hún eigi mikið erindi á þingið.

Vigdís telur að Ríkisútvarpið hafi gert launsátur að Ásthildi. Hún horfði á Silfrið í gær og fannst fremur galið að Ríkisútvarpið væri þar að ræða eigin þátt að málinu.

„Og það var náttúrulega að mínu mati svolítið mikil hörmung því mér finnst að ríkisfjölmiðillinn eigi ekki að vera leiðandi í gulu pressunni eins og þetta mál virðist vera vaxið. Og þetta er ekkert í fyrsta sinn sem gert er svona hálfgert launsátur að fólki í þessu samfélagi, sem ber jafnvel ekki barr sitt aftur eftir það.“

Vigdísi hugnast ekki hvert samfélagið er að fara. Það sé kominn tími til að grafa heykvíslarnar og ræða stjórnmál út frá pólitík en ekki einkahögum kjörinna fulltrúa.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Haukur hraunar yfir RÚV og segir sannleiksgildi hafa verið sniðgengið og falsfréttir fluttar – „Jók á tortryggni og trúnaðarbrest“

Haukur hraunar yfir RÚV og segir sannleiksgildi hafa verið sniðgengið og falsfréttir fluttar – „Jók á tortryggni og trúnaðarbrest“
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Karl Steinar: Lögregla gæti kallað til fleiri hundruð óbreytta Íslendinga ef allt fer í skrúfuna

Karl Steinar: Lögregla gæti kallað til fleiri hundruð óbreytta Íslendinga ef allt fer í skrúfuna
Fréttir
Í gær

Meintur brotaþoli var kærður fyrir árás á Hauk – Lögregla felldi niður málið og ákærði Hauk fyrir manndrápstilraun

Meintur brotaþoli var kærður fyrir árás á Hauk – Lögregla felldi niður málið og ákærði Hauk fyrir manndrápstilraun
Fréttir
Í gær

Bandarískir ráðamenn ræddu óvart viðkvæm hernaðarmálefni við blaðamann Atlantic

Bandarískir ráðamenn ræddu óvart viðkvæm hernaðarmálefni við blaðamann Atlantic