Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) bera sig illa vegna frumvarps til breytinga á veiðigjöldum sem atvinnuvegaráðherra hefur kynnt. Segja samtökin að frumvarpið muni tvöfalda gjaldtöku á sjávarútveginn og valda auknum rekstrarerfiðleikum í greininni. Atvinnuvegaráðherra og fjármálaráðherra segja greinina hins vegar vel ráða við breytingarnar og aðrir stjórnarliðar segja að samtökin hafi þegar hafist handa við að reka áróður gegn frumvarpinu.
Í kynningu á efni frumvarpsins sem birt hefur verið í samráðsgátt stjórnvalda segir meðal annars að lagt sé til að viðmið aflaverðmætis í norsk-íslenskri síld, kolmuna, makríl, þorsk og ýsu verði breytt á þann hátt að miðað verði við verð á fiskmörkuðum á síðustu 12 mánuðum. Í frumvarpinu er meðal annars einnig lagt til að aflaverðmæti uppsjávarfisktegunda verði umreiknað úr norskum krónum í íslenskar krónur. Lagt er að frystiskip verði ekki hluti af reiknistofni veiðigjalds. Samhliða því sé áformað að fella brott lækkun á skráðu aflaverðmæti frysts afla. Sá afsláttur sem sé 10 prósent endurspegli ekki raunverulegt aflaverðmæti, þar sem um sé að ræða fullunna vöru við löndun.
Segir enn fremur í kynningunni að aflaverðmæti í reiknistofni veiðigjalds annarra nytjastofna verði áfram byggt á upplýsingum í greinargerð um tekjur og kostnað af veiðum fiskiskipa sem Ríkisskattstjóri safni saman. Engar breytingar séu lagðar til á útreikningi veiðigjalds og áfram verði veiðigjald 33 prósent af reiknistofni hvers nytjastofns. Segir að lokum að breytingarnar muni hafa þau áhrif að veiðigjald hækki sem hafi mest áhrif á botnfiskútgerðir sem ekki hafa vinnslu og litla- og meðalstóra aðila. Til að milda þau áhrif sé lagt til frítekjumark.
Áður en efni frumvarpsins var kynnt opinberlega kusu Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi að senda sumum fjölmiðlum fréttatilkynningu þar sem frumvarpið var gagnrýnt harðlega.
Samkvæmt umfjöllun sjávarútvegsvefs Morgunblaðsins telja samtökin að áform stjórnvalda séu skaðlegri greininni en aðrar hugmyndir sem fram hafi komið um gjaldtöku á sjávarútveg. Segja samtökin að fyrirhugað sé að blása upp tekjur af veiðum og miða þar við verð á norskum uppboðsmörkuðum fyrir uppsjávarfisk og íslenskum uppboðsmarkaði fyrir botnfisk. Með því eigi að miða við tekjur í sundurslitinni virðiskeðju, en ekki samþættri virðiskeðju, líkt og eigi við um íslenskan sjávarútveg. Verðmætasköpun og samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs hafi hverfst um hina samþættu virðiskeðju.
Vilja samtökin meina að verði frumvarpið óbreytt að lögum muni það þýða að fiskvinnsla flytjist úr landi. Verðmætasköpun muni minnka, störfum í sjávarútvegi fækka, nýsköpun í landvinnslu drabbast niður og afleiddar tekjur og tekjur sveitarfélaga af sjávarútvegi muni minnka. Segir að lokum í tilkynningunni að það sé þungur róður framundan í íslenskum sjávarútvegi.
Ráðherrar, þingmenn og aðrir stjórnarliðar gefa hins vegar ekki mikið fyrir þessar yfirlýsingar Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra og Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra sögðu þegar þau kynntu frumvarpið á blaðamannafundi, samkvæmt umfjöllun RÚV, að með þessum breytingum sé fyrirhugað að veiðigjald endurspegli raunverulegt aflaverðmæti betur en raunin hafi verið. Sögðu ráðherrarnir skoðun stjórnvalda staðfesta að verð fyrir sjávarafla væri lægra í viðskiptum milli útgerða og vinnslu í eigu sömu aðila en það væri á fiskmörkuðum. Þess vegna eigi, þegar veiðigjald sé reiknað út, að miða við verð á fiskmörkuðum sem eigi að skila tvöfalt hærri tekjum í ríkissjóð þó að hlutfall veiðigjalda verði óbreytt. Vildu ráðherrarnir meina að landvinnsla ætti ekki að bera neinn skaða af frumvarpinu þar sem hún væri nú þegar aðskilin frá veiðum. Ljóst væri að breytingarnar þýddu að sjávarútvegsfyrirtæki þyrftu að greiða hærri upphæðir í veiðigjöld en þau væru flest það vel stödd að þau réðu vel við það og minni fyrirtækjum yrði hlíft við breytingunum með frítekjumarki.
Þingmenn stjórnarflokkanna segja að gagnrýni SFS á efni frumvarpsins einkennist af áróðri. Jón Gnarr þingmaður Viðreisnar gerir það þó, í Facebook-færslu, með óbeinum hætti og beinist gagnrýni hans fremur að Morgunblaðinu vegna myndar af Daða Má sem birt var með frétt um gagnrýnina en á myndinni er fjármálaráðherrann frekar reiðilegur á svipinn.
„Það er nokkuð þekkt aðferð fjölmiðla að reyna að nota myndir af fólki sem eru augljóslega notaðar til koma því illa eða sýna það í annarlegu ljósi. …. Það væri nú varla hægt að ná verri mynd af þessum góða og gáfaða ljúflingi en þessa.“
Dagur B. Eggertsson þingmaður Samfylkingarinnar segir hins vegar beint út á sinni Facebook-síðu að um áróður sé að ræða hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi:
„Hitt vekur ekki síður athygli. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) hefur greinilega verið sýndur sá trúnaður að fá kynningu á þessum tillögum fyrirfram. Þau kjósa að rjúfa þann trúnað og senda frá sér yfirlýsingu um þessa leiðréttingu á veiðigjöldum, áður en hún er kynnt fyrir almenningi. SFS setur mjög niður með þessum leka og ætlar augljóslega að seilast langt í sínum málflutningi. Fullyrðingar samtakanna eru réttnefndur áróður og í engum takti við afkomu útgerðarinnar.“
Þórður Snær Júlíusson framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingarinnar segir í aðsendri grein á Vísi að með frumvarpinu sé ríkisstjórnin að koma í framkvæmd breytingum sem hafi ekki tekist að koma á í 40 ár. Hann gefur ekki mikið fyrir þau orð Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi að þungur róður sé framundan. Tekjur af veiðigjaldi hafi ekki staðið undir kostnaði við þá þjónustu sem ríkið veiti sjávarútveginum:
„Það segir sig sjálft að skattgreiðendur geta ekki verið að greiða með þjónustu sem hið opinbera er að veita atvinnugrein sem skilaði um 60 milljörðum króna í hagnað á umræddu ári. Það er því ekki „þungur róður fram undan“ líkt og hagsmunagæsluöfl útgerða hafa haldið fram.“