Fjarskiptastofa hefur komist að þeirri niðurstöðu að fjarskiptafyrirtækinu Hringdu sé óheimilt að afhenda Skattinum upplýsingar sem stofnunin óskaði eftir vegna rannsóknar á ótilgreindu máli.
Hringdu leitaði til Fjarskiptastofu í febrúar síðastliðnum og leitaði ráða vegna beiðni Skattsins, nánar til tekið skattrannsóknarstjóra, um að fyrirtækið myndi láta embættinu í té gögn og upplýsingar varðandi hvaða einstaklingur eða fyrirtæki væri eigandi eða notandi tiltekinnar IP-tölu á tilteknu tímabili. Auk þess var óskað eftir staðsetningarupplýsingum. Hringdu tjáði Fjarskiptastofu að fyrirtækið hefði oft afhent lögreglu slíkar upplýsingar en hefði aldrei fengið slíka beiðni frá Skattinum. Spurði Hringdu því Fjarskiptastofu hvort Skatturinn ætti rétt á þessum upplýsingum.
Fjarskiptastofa svaraði Hringdu með þeim hætti að samkvæmt lögum ætti aðeins lögreglan rétt á að fá slíkar upplýsingar og yrði Skatturinn að afla þeirra með milligöngu hennar.
Tekið var þó fram að aðeins væri um álit að ræða en ekki formlega ákvörðun.
Í kjölfarið neitaði Hringdu Skattinum um aðgang að þessum upplýsingum.
Skattrannsóknarstjóri sneri sér þá til Fjarskiptastofu og óskaði eftir að stofnunin endurskoðaði afstöðu sína m.a. með þeim rökum að ákvæði laga um meðferð sakamála giltu að töluverðu leyti um störf og rannsóknir skattrannsóknarstjóra og að líta bæri á rannsóknir hans sem ígildi lögreglurannsóknar.
Í kjölfar þessa erindis skattrannsóknarstjóra var málið tekið til formlegrar meðferðar hjá Fjarskiptastofu.
Í ákvörðun Fjarskiptastofu er lagalegur grundvöllur málsins rakinn með ítarlegum hætti.
Segir í ákvörðuninni meðal annars að fjarskiptafyrirtækjum á Íslandi sé samkvæmt fjarskiptalögum skylt að verða við beiðnum lögreglu þegar kemur að rannsókn sakamála. Slíkar beiðnir verði þó að byggja á dómsúrskurði eða lagaheimild. Fram komi í lögunum að ekki megi án undangengins dómsúrskurðar heimila óviðkomandi aðilum að sjá skeyti, önnur skjöl eða annál um sendingar sem um fjarskiptavirki fara eða hlusta á fjarskiptasamtöl eða hljóðrita þau. Samkvæmt sömu grein laganna sé fjarskiptafyrirtæki þó rétt og skylt að veita lögreglu, í þágu rannsóknar sakamáls, upplýsingar um hver sé skráður notandi ákveðins símanúmers og/eða notandi IP-tölu, svo og hvaða símanúmer tiltekinn viðskiptavinur var með á tilteknu tímabili.
Segir enn fremur að samkvæmt fjarskiptalögum skuli fjarskiptafyrirtæki tryggja vörslu fjarskiptagagna og óheimilt sé að afhenda þau öðrum en lögreglu og ákæruvaldi. Lög um meðferð sakamála útiloki að aðrir en handhafar ákæruvalds geti fengið dómsúrskurð um gagnaafhendingu frá fjarskiptafyrirtækjum. Samkvæmt upplýsingum á vef ríkissaksóknara og dómsmálaráðuneytis séu þær stofnanir sem fara með ákæruvald ríkissaksóknari, héraðssaksóknari og lögreglustjórar.
Þar með sé í raun um að ræða ákveðinn ómöguleika fyrir eftirlitsstjórnvald, á borð við skattrannsóknarstjóra, að sækja sér með sjálfstæðum hætti dómsúrskurð um afhendingu fjarskiptafyrirtækja á fjarskiptaumferðarupplýsingum sem kalli á undangenginn dómsúrskurð, eins og t.d. staðsetningarupplýsingar notenda.
Það er því niðurstaða Fjarskiptastofu að gögn um fjarskipti einstaklinga megi aðeins afhenda lögreglunni og handhöfum ákæruvalds, vegna rannsóknar sakamála. Gagnaöflunarheimildir einstakra eftirlitsstjórnvalda eins og skattrannsóknarstjóra og rannsóknir sakamála geti ekki ýtt reglum og viðmiðum um persónuvernd og trúnaðarskyldu, vegna fjarskiptagagna, til hliðar.
Hringdu er því ekki heimilt að afhenda Skattinum þær upplýsingar sem embættið fór fram á. Segir í ákvörðun Fjarskiptastofu að til þess að það sé mögulegt verði að breyta fjarskiptalögum.
Mögulegt er þó fyrir Skattinn að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar fjarskiptamála eða beint til dómstóla.