„Ég held að umræða um leikskóla Reykjavíkurborgar er nú yfirleitt í neikvæðari kantinum og það er ekki út af leikskólanum sjálfum, heldur út af kerfinu sem slíku og þeirri staðreynd að erfitt er að fá pláss og svo framvegis. Það er auðvitað ekki við sjálfa leikskólana að sakast,“
segir Frosti Logason í Harmageddon þar sem hann fjallar um starf leikskólakennarans. Segir hann léleg laun í boði fyrir það frábæra starfsfólk sem þar vinnur og fá pláss í boði, sem stjórnmálamenn hafi þó ítrekað í kosningum eftir kosningum lofað að bæta úr. Segir Frosti vert að minnast á það að leikskólarnir sjálfir eru margir hverjir algjörlega til fyrirmyndar.
„Í morgun einmitt þá var erfiður morgunn heima fyrir eins og stundum er þegar maður er með marga krakka og tveir strákar sem voru að rífast og öskra og garga og pabbinn var orðinn vel pirraður og þetta var eiginlega búið að eyðileggja fyrir mér daginn. Svo fór ég í leikskólann með þá.“
Segist Frosti hafa gleymt pollagalla heima og því þurft að keyra aðra ferð á leikskólann. Þar var allt rólegt og kom einn leikskólakennarinn fram og sagði við Frosta:
„Mig langar bara svo að segja við þig, hann er svo yndislegur drengurinn þinn og það er svo fallegt hvað hann er.“ Og gefur bara með einhver svona hlý orð sem að björguðu bara deginum mínum. Algjörlega björguðu deginum mínum. Í þessum leikskóla þar sem ég er, Álftaborg, er þetta svo gjörsamlega til fyrirmyndar og starfsfólkið svo frábært og allur aðbúnaður til fyrirmyndar.
Þetta er, þetta breytir öllu og eins og ég segi, ég keyrði hingað eftir þetta, hugsaði bara vá hvað ein svona manneskja í leikskólanum getur bara bjargað degi manns með réttum orðum að morgni.“
Ingimar Elíasson, tæknimaður í Harmageddon tekur undir að þetta sé mikilvægasta starfið.
„Þetta eru börnin okkar. Okkur þykir ekki vænna um neitt meira heldur en börnin okkar. Og þetta er fólkið sem er með þau allt að átta klukkutíma á dag. Börnin. Hvað getur verið mikilvægara en það? Ekki neitt. Ekki lögmaðurinn þinn eða annað.“
Ingimar skýtur inn í að steinsnar aftar sé fólkið sem sinnir öldruðum.
„Og hvernig eru launin hjá þessu fólki? Þau eru ekki í takti við mikilvægið.“
Ingimar bendir á að meirihluti leikskólakennara séu konur og því um kvennastétt að ræða. Það væri því hægt að leysa margt ef Reykjavíkurborg myndi hækka launin hjá leikskólakennurum.
„Af því að við erum að tala um kynbundinn launamun. Hérna er hann ekki bundinn á milli kynja, það er ekki kona sem fær greitt minna heldur en karl fyrir sama starf en það eru hins vegar ákveðin störf sem fá greitt minna heldur en þau eru virði. Og það er einmitt hægt að leiðrétta heilmikið með því að einmitt að láta þessar kvennastéttir eins og þú segir fá væna launahækkun. Ríflega launahækkun mundi ég segja. Af því að mikilvægi þessara starfa er algjörlega óumdeilt.
Ef þú ert vera stjórnmálamaður sem vilt láta gott af þér leiða og gera eitthvað rétt, þá er það þetta. Það er að berjast fyrir því að það séu hækkuð laun og hætta einhverju öðru bruðli þá í staðinn. Það er nóg af því í Reykjavík. Já, og hækka laun leikskólastarfsmanna, grunnskólastarfsmanna líka. Það er skrýtið einhvern veginn að það eru atvinnustjórnmálamenn sem eru búnir að hrærast í þessu lengi, kannski búnir að vera í mörg ár í stjórnmálum og hafa ekki drullast til þess að koma þessu í gegn.“