Kona hefur verið sakfelld í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að ráðast á tvo lögreglumenn. Höfðu þeir verið kallaðir að heimili konunnar m.a. vegna öskra og láta frá henni en að sögn eiginmanns hennar átt það sinn þátt í hegðun hennar að hún hefði drukkið heila flösku af Baileys líkjör.
Samkvæmt lögregluskýrslu átti atvikið sér stað í október á síðasta ári. Nágranni konunnar kallaði til lögreglu þar sem mikil læti heyrðust frá íbúð hennar þar sem hún bjó ásamt eiginmanni. Lögreglumenn knúðu dyra og eiginmaðurinn opnaði en konan æpti að þeim og sagði að kötturinn hennar væri veikur og að lögreglumennirnir ættu við vandamál að stríða. Illa gekk að ræða við konuna vegna þess ástands sem hún var í.
Þegar einn lögreglumannanna tók í hönd konunnar til að róa hana og fá hana til að ræða við sig sló hún harkalega í hönd lögreglumannsins með flötum lófa. Var konan þá samstundis handtekin. Þegar beðið var eftir lögreglubifreið til að flytja konuna á lögreglustöð reyndi hún að sparka í annan lögreglumanna. Lögreglumaðurinn sem hún sló fann hins vegar fyrir eymslum og var með roða og bólgu.
Lögreglumenn ræddu við eiginmann konunnar á vettvangi sem sagði hana hafa verið að ganga í gegnum mikið álag þar sem einstaklingur henni nákominn hefði látist daginn áður. Þá hefði hún nýlega legið á spítala vegna og hún hefði drukkið heila stóra flösku af Baileys líkjör þetta kvöld. Eftir að hafa drukkið áfengið hefði hún farið að öskra mikið. Öskrin hefðu beinst að honum en ekkert ofbeldi hefði átt sér stað. Hann vonaðist til að hún fengi að ræða við lækni þegar hún losnaði úr haldi lögreglu.
Konan neitaði sök fyrir dómi. Hún hefði orðið hrædd vegna fjölda lögreglumanna sem hefðu komið á heimilið. Hún hefði fundið að togað hefði verið í hönd hennar og ekki áttað sig á hver væri að því og þar af leiðandi brugðist ósjálfrátt við með því að slá frá sér. Sagðist konan hafa verið að glíma við mikla vanlíðan á þessum tíma vegna þeirra þátta sem eiginmaður hennar hafði nefnt við lögreglumenn. Fullyrti konan fyrir dómi að hún hefði aðeins drukkið smáræði af Baileys þetta kvöld.
Framburður eiginmannsins fyrir dómi var nokkuð ólíkur framburði hans hjá lögreglunni umrætt kvöld. Hún hefði ekki verið með nein læti og hefði aðeins drukkið lítilræði af Baileys. Vildi hann meina að algjör óþarfi hefði verið að kalla til lögreglu.
Lögreglumaðurinn sem konan var ákærð fyrir að slá bar fyrir dómi að höggið frá konunni hefði verið virkilega sárt. Vildi lögreglumaðurinn meina að eiginmaðurinn hefði sýnt sér tóma flösku af Bailey´s sem hann hefði sagt hafa verið fulla áður en konan byrjaði að drekka úr henni. Ítrekaði lögreglumaðurinn að konan hefði verið virkilega æst þetta kvöld og auðsjáanlega í annarlegu ástandi.
Annar lögreglumaður sagði fyrir dómi að konan hefði náð að sparka í hann án þess þó að valda honum skaða.
Konan sagðist ekki muna eftir neinu sparki af hennar hálfu.
Í niðurstöðu héraðsdóms segir að ekki sé hægt að veita framburði eiginmannsins mikið vægi í ljósi tengsla hans við konuna og þess að framburður hans fyrir dómi hafi tekið töluverðum breytingum frá því hvernig hann lýsti atburðum fyrir lögreglumönnum umrætt kvöld. Framburður allra lögreglumanna sem komu fyrir dóminn hafi hins vegar verið samhljóða og upptaka úr búkmyndavél lögreglumannsins sem sleginn var renni stoðum undir framburð þeirra. Á upptökunni sjáist vel að konan hafi verið afar æst og slegið lögreglumanninn í annan handlegginn og ekki sé hægt að taka undir framburð konunnar að um ósjálfráð viðbrögð hafi verið að ræða. Segir dómurinn einnig framburð lögreglumannanna staðfesta að konan hafi sömuleiðis sparkað í átt að öðrum þeirra eftir að hún hafði verið handtekin.
Hvað varðar áfengisneyslu konunnar umrætt kvöld segir dómurinn hana vera aukaatriði þar sem það leysi fólk ekki undan refsiábyrgð að hafa verið ölvað.
Konan var því sakfelld. Í ljósi sakarefnisins og þess að hún hafði áður hlotið dóm fyrir umferðarlagabrot þótti við hæfi að dæma hana í 30 daga skilorðsbundið fangelsi.