fbpx
Miðvikudagur 26.mars 2025
Fréttir

Urðar yfir Hallgrím í löngum reiðilestri um hálfs árs gamalt viðtal – „Sumt einfaldlega gerir maður ekki. Maður sýnir sorg annarra virðingu“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 24. mars 2025 13:07

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rithöfundurinn Hermann Stefánsson birti óvænt í dag langan reiðilestur yfir kollega sínum, Hallgrími Helgasyni, í aðsendri grein á Vísi. Þar rekur Hermann viðtal sem birtist við Hallgrím fyrir hálfu ári síðan sem Hermann segir líklega versta höfundarviðtal íslenskrar bókmenntasögu.

„Er rétt að rifja upp versta höfundarviðtal íslenskrar bókmenntasögu? Já, ég held það,“ skrifar Hermann, en viðtalið sem hann vísar til birtist í menningarblaði Heimildarinnar í október síðastliðnum. Hermann segir að aldrei hafi birst verra viðtal við íslenskan rithöfund, það hafi bara ekki mátt benda á það þegar viðtalið kom fyrst út.

Hallgrímur fór hörðum orðum í viðtalinu um Eirík Guðmundsson, útvarpsmann og rithöfund, sem hafði á sínum tíma hæðst að Hallgrími fyrir að stíga fram sem þolandi kynferðisofbeldis. Hallgrímur rifjaði upp að mörgum árum síðar, í metoo-bylgjunni, hafi Eiríkur skrifað á Facebook að hann stæði alltaf með konum. Hallgrímur reiddist mikið við að sjá þá færslu og hjólaði í Eirík fyrir að hafa áður hæðst að kynferðisofbeldinu sem Hallgrímur var beittur. Þetta rifrildi varð til þess að Eiríkur baðst loks afsökunar og tæpu ári síðar, í ágúst 2022, lét Eiríkur lífið eftir erfið veikindi. Hallgrímur segir í viðtalinu að sumir hafi sakað hann um að hafa átt þátt í andlátinu.

Sjá einnig: Metoo-deila skekur bókmenntaheiminn – „Fólk sem er falskt, tala ekki við það“

Í jaðararför óvinar síns

Hermann gagnrýnir að Hallgrímur hafi varið stærstum hluta viðtalsins í að gera upp sakir við látna menn, þá einkum Eirík. Það hafi svo bitið höfuðið af skömminni þegar Hallgrímur mætti í jarðarför Eiríks.

„Hvað er það ósmekklegasta sem maður getur gert þegar maður mætir í jarðarför óvinar síns? Tja, á grínstiginu má hugsa sér ýmislegt en í veruleikanum og af reynslunni held ég að þar toppi flest annað það sem Hallgrímur Helgason gerði í jarðarför Eiríks Guðmundssonar, rithöfundar og úrvarpsmanns, í Hallgrímskirkju 26. ágúst 2022: Að senda beint út tónlist úr jarðarförinni á Instagram.

Í alvöru? Gerði hann það? Já, það gerði hann. Öllu meiri lágkúra er ekki til. Sumt einfaldlega gerir maður ekki. Maður sýnir sorg annarra virðingu.“

Hermann segir að þegar Hallgrímur réðst á Eirík í metoo hafi hann vel vitað að Eiríkur var veikur, með lífshættulegan sjúkdóm og illa á sig kominn. Aðförin hafi orðið til þess að RÚV fjarlægði pistil eftir Eirík, þar sem hæðst var að Hallgrími og kynferðisbrotinu, en Hermann telur það mistök. Þar með geti almenningur ekki lagt sjálfur mat á hlutina sem Eiríkur þurfti að biðjast afsökunar á.

Heilagur Hallgrímur

„Heilagur sankti Hallgrímur knúði fram afsökunarbeiðni hjá RÚV. Það hefur aldrei gerst í sögu þess opinbera miðils að listamaður fái afsökunarbeiðni fyrir umfjöllun tengda útgáfu á bók eftir sig. Það á ekki að geta gerst. Aldrei myndi hvarfla að mér að fara fram á annað eins, sama hversu grátt ég ætti einhverjum að gjalda. Slík krafa er siðlaus.

Hún verður enn siðlausari þegar heita má að heilagur Hallgrímur, kallinn á stallinum, hræki á afsökunarbeiðnina jafnóðum, án nokkurra skýringa. Taki hana ekki gilda og enginn viti hvers maðurinn er að krefjast.“

Hermann segir að sjálfur hafi Hallgrímur aldrei beðist afsökunar á einu né neinu. Hann sé meira í hefndinni en fyrirgefningunni.

„Heiftrækni, hefndarþorsti og langrækni eru meira í ætt við það sem maður sér frá honum í dag. Áður var það mest kjaftháttur. Nú skildi hver vara sig sem hugsar krítískt um dýrlinginn Hallgrím Helgason og söguna sem hann vill búa til um sjálfan sig, aleinn. Sá hinn sami fær að lágmarki á sig illa orta vísu á Facebook.“

Ámælisvert að sparka í liggjandi mann

Hermann fer mikinn gegn Hallgrími og sakar hann meðal annars um smjaður, að vera hörundssár, að hafa ekki húmor fyrir sjálfum sér og eins sakar hann Hallgrím um lygar. Hallgrímur segi í viðtalinu að hann hafi tekið afsökunarbeiðni Eiríks gilda, það hafi hann ekki gert. Hermann segir að Hallgrímur hafi ekki drepið Eirík en það sé þó siðlaust að sparka í liggjandi mann.

„Ef maður orðar það þannig að Hallgrímur hafi drepið Eirík orkar það nokkuð fráleitt og eðlilegt að kenna til með Hallgrími að verða fyrir svo ósanngjörnum ásökunum, ef maður er frekar trúgjarn. Orði maður það þannig að það sé ekki vel siðlegt að ráðast svo harkalega á mann sem maður veit, eða má vita, að er mjög sjúkur, enda geti það leitt hann á slóðir í grennd við dauðann — það er nokkuð annað. Það er ámælisvert að sparka í liggjandi mann. Enginn efast um það.

Hann vissi að Eiríkur var liggjandi. Hallgrímur sagði mér það sjálfur. Finnst þér þá rétti tíminn til að vega að honum núna? spurði ég á móti. Fékk aldrei svar og hef ekki heyrt í manninum síðan, né hef það í hyggju.“

Hermann sakar Hallgrím eins um kvenfyrirlitningu í skrifum sínum, tilgerðarfemínisma og loks um hræsni.

„Hallgrímur hafði að eigin sögn val um að vera góð manneskja eða góður rithöfundur þegar kom að meðferðinni á raunverulegri persónu. Það held ég að sé ansi fráleit andstæða. Ef hún er raunveruleg er ljóst hvernig fór um fyrri hlutann, að vera góð manneskja, þótt enn sé ekki útséð um þann síðari.

Að falla ofan af stalli er hátt fall. Það er það vafasama við að upphefja sig á stall, einkum á kostnað annarra.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Leikskólakennarinn sem bjargaði deginum fyrir Frosta

Leikskólakennarinn sem bjargaði deginum fyrir Frosta
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Auka rétt til fæðingarorlofs og fæðingarstyrks vegna fjölburafæðinga – „Aukið álag að eignast tvö börn í stað eins“

Auka rétt til fæðingarorlofs og fæðingarstyrks vegna fjölburafæðinga – „Aukið álag að eignast tvö börn í stað eins“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Sjávarútvegurinn segir þungan róður framundan – Áróður segja stjórnarliðar

Sjávarútvegurinn segir þungan róður framundan – Áróður segja stjórnarliðar
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Allt fór í skrúfuna eftir að hún drakk heila flösku af Baileys

Allt fór í skrúfuna eftir að hún drakk heila flösku af Baileys