Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur fer hörðum orðum um umfjöllun fjölmiðla um mál Ásthildar Lóu Þórsdóttur, sem sagði af sér embætti barna- og menntamálaráðherra eftir að upplýst var um að hún hefði fyrir 35 árum átt í ástarsambandi við 16 ára pilt, er hún sjálf var 22 ára, og eignast með honum barn.
Haukur segir fjölmiðla hafa farið rangt með að Ásthildur hafi verið leiðbeinandi piltsins í sértrúarsöfnuði sem þau voru meðlimir í, sem og að Forsætisráðuneytið hafi brotið trúnað í málinu. Haukur er harðorður um þetta í pistli sem hann birti á Facebook-síðu sinni í dag:
„Ég hef ekki áður séð eins skipulega og heiftarlega pólitíska árás framkvæmda á Íslandi og þá sem staðið hefur yfir frá fimmtudagskvöldinu 20. mars 2025 og beinist að Ásthildi Lóu (ÁL). Og alls ekki af jafn litlu tilefni – því í ljós hefur komið að flestar ásakanirnar sem lagt var af stað með voru álygar. En þær litu illa út og jafnvel erlendir fjölmiðlar hafa hamast á að ÁL hafi misnotað trúnaðaraðstöðu gagnvart ungum pilti. Einstaka álitsgjafi lét blekkjast. Það var haft samband við mig og ég beðinn um að tjá mig, en ég áttaði mig á lyktinni af málinu og sagðist ekki vita hvað væri satt og logið. Það var svo ekki fyrr en á ellefta tímanum á fimmtudagskvöldinu sem ég setti út stöðufærslu á Facebook um að forsætisráðuneytið hefði ekki brotið trúnað. Þá stöðufærslu geta allir lesið og málið er einfalt og augljóst. Þessa stöðufærslu tók enginn fréttamaður upp, enda gekk álit mitt gegn árásinni. Ennþá – á laugardagsmorgni kl. 09:30 – hefur enginn tekið upp rök mín í málinu. Það eru greinilega önnur rök en þau sem fréttamennirnir vildu sjá.
En nú hefur hægst um, hnífarnir verið dregnir úr sárinu, en standa alblóðugir í höndum timbraðra árásarmannanna sem vita ekki lengur hvað þeir eiga að gera. Þeir hafa líklega farið út að skemmta sér á föstudagskvöldi – nú eða bara farið af vakt eftir langan vinnudag. Þeir eru auðvitað með óbragð í munninum, því þeir vita að málsatvik voru ekki nógu alvarleg, þau voru ekki nógu krassandi fyrir allt tilstandið – þegar upp er staðið þurfa menn að hafa eitthvað til síns máls – og þeir eiga á hættu að vera dæmdir á siðareglum Blaðamannafélags Íslands eða Siðareglum Ríkisútvarpsins fyrir tilbúning, einhliða frásagnir, beinar árásir og fals. Og þeir geta ekki leiðrétt sig um helgina – þá þá koma þeir upp um hvað málatilbúningur þeirra var hraklegur – það væri að dæma sig sjálfan. Þeir geta annað hvort hamast á lygi og hálfsannleika – eða þagað þunnu hljóði.“
Haukur segir að blaðamenn kunni að hafa gerst brotlegir við 2. grein siðareglna Blaðamannafélags Íslands: „Blaðamaður setur fram upplýsingar á heiðarlegan og sanngjarnan hátt samkvæmt bestu vitund hverju sinni, meðal annars með því að leita andstæðra sjónarmiða þegar við á. Blaðamaður hagræðir ekki staðreyndum og setur ekki fram órökstuddar ásakanir.“ Hann fer síðan yfir möguleg brot í fréttaflutningi um málið:
„Og hvað brutu fréttamennirnir af sér? Ég er ekki dómari í þeirra sök en myndi byrja á fullyrðingunni um að ÁL hefði verið leiðbeinandi piltsins sem hún svaf hjá eða á einhvern hátt borið ábyrgð á velferð hans. Þessi fullyrðing um ábyrgð hennar kom málinu af stað – hljómaði illa bæði hér heima og erlendis – en var helber uppspuni. Þau höfðu jafna stöðu innan safnaðarins og bæði höfðu þau kynferðislegt sjálfræði þegar þetta gerðist og gátu sofið saman eins mikið og þau vildu. Og þetta leiðrétta fréttamennirnir ekki þótt þeir hafi skyldur til þess. Unga fólkið mátti einfaldlega sofa saman!!
Ráðherrunum virðist hafa verið illa brugðið – sennilega talið að um stórmál væri að ræða – en nú þurfa þeir að þykkja skrápinn og vera viðbúnir því versta frá óvinum sínum. Þeir svífast einskis. Og mín tillaga er sú að ÁL og Inga Sæland skipti um ráðuneyti (ÁL getur ekki verið barnamálaráðherra fyrr en ásökunin um tálmun hefur verið dregin til baka eða afsönnuð). Þá er málið dautt.
En ég trúi enn á heiðarleika fréttamannanna og bíð eftir því að þeir leiðrétti sig í einu og öllu og taki meðal annars upp orð mín um að forsætisráðuneytið braut ekki trúnað – hvað sem tengdamamman segir – sú kona gaf ráðuneytinu heimild til að upplýsa um hver hún er með því að ráðuneytið mátti bjóða ÁL á fundinn. Hvernig var hægt að boða ÁL á fund öðru vísi en að gefa upp nöfn fundarmanna. Öðru vísi geturðu ekki boðið til fundar hjá því opinbera. Þá mega fréttamenn taka upp 2. mgr. 41. gr. stjórnsýslulaganna þar sem segir: „Undir þagnarskyldu falla ekki upplýsingar um ámælisverða háttsemi starfsmanna stjórnvalda.“ Það gildir því ekki og hefur aldrei gild nein þagnarskylda um málið. Hvaða fréttamaður ætlar að taka þetta upp – annað hvort frá mér nema hann lesi stjórnsýslulögin sjálfur (sem hann á að hafa á skrifborðinu sínu).“