Úrskurðarnefnd lögmanna taldi lögmann hafa reiknað sér óhóflegt endurgjald fyrir þjónustu sem hann ynnti af hendi fyrir einstaklinga sem áttu í deilum við dánarbú. Lögmaðurinn hafði krafist um 3,7 milljóna sem kom skjólstæðingum hans á óvart sem bjuggust við reikningi upp á milljón. Skjólstæðingar lögmannsins kvörtuðu til úrskurðarnefndar lögmanna og sögðu reikninginn ósanngjarnan í ljósi þeirrar vinnu sem var honum að baki.
Kvartendur höfðu leitað til lögmannsins til að gæta hagsmuna þeirra í deilum við dánarbú. Forsagan var sú að kvartendur fengu um 5,5 milljónir í gjöf frá einstaklingi sem síðar lést. Erfingjar töldu þó að hér hefði verið um lán að ræða frekar en gjöf og krafðist dánarbúið endurgreiðslu.
Kvartendur áttuðu sig á því að þeir þyrftu lögfræðilega aðstoð og fengu sér lögmann. Sá tilkynnti þeim að hér væri einfalt mál á ferðinni. Þeir höfðu lítið heyrt frá lögmanninum í framhaldinu en höfðu ekki áhyggjur þar sem þeir treystu að málið væri raunverulega einfalt. Svo fór málið fyrir dómstóla og þá kom áfallið. Ekki bara töpuðu kvartendur málinu heldur þurftu þeir að greiða svo miklu meira en þessar 5,5 milljónir. Nú höfðu bæst við 2 milljónir í vexti og eins 2 milljónir í málskostnað fyrir dánarbúið.
Það var því til að bæta gráu ofan á svart þegar reikningurinn kom loks frá lögmanni þeirra. Málið hafði tekið á þriðja ár en lögmaðurinn hafði aldrei gefið út reikning á þeim tíma heldur rukkaði allt í einu lagi. Hann hafði auk þess hækkað tímagjald sitt um 20% á tímabilinu. Reikningurinn hljóðaði upp á um 3,7 milljónir þrátt fyrir 35,74% afslátt af vinnu lögmannsins við málið í héraðsdómi.
Kvartendur gerðu athugasemdir við vinnu lögmannsins. Hann hafi rukkað fyrir rúmlega 129 klukkustundir en það fái ekki staðist að hann hafi unnið þetta mikið, einkum í ljósi þess að málið tapaðist, lögmaðurinn í litlum samskiptum við skjólstæðinga sína, og eins hefði hann mætt illa undirbúinn í aðalmeðferð með lélegan fræðilegan rökstuðning.
Þar sem hann hafði lofað því að málið væri einfalt reiknuðu þau við kostnaði upp á um það bil milljón. Lögmaðurinn hafi ekki gefið þeim neina áætlun um heildarkostnað. Hann hafi eins lítið látið heyra í sér á meðan deilur þeirra við dánarbúið voru í gangi. Hann svaraði tölvupóstum illa og ráðfærði sig lítið við kvartendur. Hann hafi svo mætt illa undirbúinn í aðalmeðferð, flutt máttlausa ræðu, spurði fárra spurninga og virtist skora á fræðilegan rökstuðning.
Kvartendur sögðu reikninginn í engu samræmi við þá vinnu sem fór fram. Eins hafi lögmaðurinn ekki varað þá við því að svona gæti farið. Aldrei hafi verið varað við því að þeir gætu endað með að borga milljónir í vexti eða milljónir í málskostnað dánarbúsins. Þeir hafi þvert á móti verið fullvissaðir um að málið væri einfalt sem benti til að lögmaðurinn teldi meiri líkur en minni að það yrði unnið fyrir dómi.
Lögmaðurinn mótmælti því að hafa verið ósanngjarnt við útgáfu reiknings. Þarna að baki væru ítarlegar tímaskýrslur og auk þess hefði hann veitt veglegan afslátt. Hann hafi unnið allar þær stundir sem hann rukkaði fyrir, hann hafi aldrei kallað málið einfalt og ekki vanrækt að veita upplýsingar. Þvert á móti hafi hann í rúmlega tvö ár unnið af heilindum fyrir skjólstæðinga sína.
Úrskurðarnefndin benti á að niðurstaðan í dómsmálinu hafi verið í fullkomnu samræmi við fyrirliggjandi dómafordæmi. Þetta hefði lögmaðurinn átt að vita og þar með áttað sig á þeirri áhættu sem væri til staðar. Samkvæmt siðareglum lögmanna er skylt að benda fólki á það þegar áhættan í málinu er svo mikil að það hreinlega borgi sig ekki að halda því til streitu. Hér hafi kvartendur ekki verið varaðir við og auk þess, út af fyrirliggjandi dómafordæmum, hefði lögmaðurinn átt að tryggja að málið væri unnið með hæfilegum tilskilnaði. Nefndin gerði eins athugasemd við tímaskýrslur sem ættu sér ekki að öllu leyti stoð í gögnum málsins. Þar með var reikningurinn umdeildi lækkaður verulega. Í staðinn fyrir að þurfa að greiða 3,7 milljónir eiga kvartendur nú að greiða 2 milljónir að meðtöldum virðisaukaskatti.