Dagur B. Eggertsson, þingmaður Samfylkingar, fagnar að Morgunblaðið hafi „rofið þögnina“ sem ríkt hafi um rithendur ráðamanna.
„Blaðið hefur greinilega ákveðið að byrja á okkar ágæta forseta Höllu Tómasdóttur. Og finnst hún alls ekki skrifa vel og vill að hún breyti undirritun sinni. Annan daginn í röð er frétt um þetta í blaði dagsins,“ segir Dagur í færslu á samfélagsmiðlum.
Er hann að vísa til frétta Morgunblaðsins um að Halla hafi ekki notað fullt nafn sitt við undirritun á 75 ára afmælistónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Heldur hafi hún notað „Halla Tomas.“
Svaraði Halla því að hún hefði notað þessa undirskrift áratugum saman. Ræddi Morgunblaðið einnig við Guðrúnu Kvaran prófessor emeritus í íslensku, sem var yfir sig hneyksluð. „Það er ekkert betra. Hún var mikið í erlendum samskiptum og þá var kannski erfitt að hafa „dóttir“. En hún býr á Íslandi og er að skrifa undir íslenskt plagg. Þá á hún að skrifa undir „Halla Tómasdóttir“ og ekkert annað,“ sagði Guðrún við Morgunblaðið.
Dagur segist vona og gerir eiginlega kröfu um að þetta verði upphafið að greinaflokki um þessi efni.
„Ég hef lengi þráð að fá skýringar á því hvers vegna ritstjóri blaðsins skrifar alltaf undir með einhverju sem líkist “Gmmtnnnnm” en alls ekki Davið Odsson einsog víða má sjá í opinberum skjölum,“ segir hann og birtir mynd af rithönd Davíðs. „Hér er dæmi af fyrsta Icesave-samningnum sem ritstjórinn skrifaði undir með Árna Matthiesen þáverandi fjármálaráðherra haustið 2008. MÁ ÞETTA BARA????“