Í tilkynningu frá Landsneti kemur fram að flutningskerfi fyrirtækisins hafi orðið fyrir stórri truflun nú rétt í þessu. Verið sé að ná utan um hana og vinna í að koma öllu í gang aftur.
Rafmagnslaust er út frá tengivirki fyrirtækisins á Teigarhorni á Austfjörðum og á Vestfjörðum og vandræði hafa verið í álveri Norðuráls á Grundartanga, samkvæmt tilkynningunni.
Steinunn Þorsteinsdóttir upplýsingafulltrúi Landsnets hefur tjáð RÚV að rafmagnslaust sé á öllum Vestfjörðum vegna truflunarinnar og hluta Austfjarða.
Á vef Landsnets segir að Norðurál hafi leyst út allt álag og segir Steinunn RÚV að við það að Norðurál hafi leyst út hafi komið stórt högg á flutningskerfið og rafmagnstruflanir komið upp víða um land. Hún segir að rafmagn ætti að vera komið aftur á alls staðar, eða að það sé alveg að koma.
Í nýrri tilkynningu á vef Landsnets segir að truflunin sem varð á flutningskerfi fyrirtækisins vegna stóriðju sé yfirstaðin og kerfið sé nú stöðugt.
Í uppfærðri tilkynningu á Facebook-síðu Landsnets kemur fram að álver Norðuráls sló út fyrr í kvöld og við það hafi komið högg á kerfið.
Yfir 600 Megavött (MW) hafi farið út á augabragði sem teljist gríðarlega stórt högg á flutningskerfið.
Flutningskerfið hafi skipt sér upp í Blöndu á Hólum. Enginn notandi hafi orðið rafmagnslaus á því svæði fyrir utan að spennir RARIK á Teigarhorni á Austurlandi hafi leyst út og leysti Mjólkárlína 1 einnig út og við það hafi Vestfirðir einangrast frá flutningskerfinu. Varaaflsvélar í Bolungarvík hafi farið í gang og rafmagnsleysi á norðarverðum Vestfjörðum orði’ skammvinnt á meðan þær voru að ræsa sig í gang. Sunnanverðir Vestfirðir hafi ekki orðið fyrir rafmagnsleysi en skerðanlegir notendur dottið út.
Íbúar víða um land hafi orðið varir við spennuhöggið í formi blikks á ljósum. Ekkert rafmagnsleysi hafi orðið á höfuðborgarsvæðinu við truflunina en fram kom þó hjá RÚV að rafmagninu hafi slegið út í útvarpshúsinu í Efstaleiti.
Að lokum segir í tilkynningu Landsnets að varnir kerfisins sem settar séu upp fyrir slíka viðburði hafi virkað og skipt kerfinu í tvo hluta, sem geri stýringu og uppbyggingu flutningskerfis auðveldari.
Kerfið sé komið í jafnvægi og engir notendur rafmagnslausir.
Orksakir truflanarinnar séu ekki ljósar enn sem komið er.
RÚV greinir frá því að álver Norðuráls hafi verið rýmt í kjölfar þess að rafmagninu sló þar út. Eldur mun hafa komið upp við rafmagnsinntak og slökkvilið Akraness var kallað á staðinn sem og Lögreglan á Vesturlandi en vel hefur gengið að ráða niðurlögum eldsins og engin slys urðu á fólki.