fbpx
Þriðjudagur 15.apríl 2025
Fréttir

Segir undarlegt að sjá þekkt undirheimafólk í tálbeituhópum – „Þarna virðast glæpamenn vera að ná sér í pening“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 18. mars 2025 13:45

Fjölnir Sæmundsson. Mynd: Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ungt fólk getur eyðilagt líf sitt með því að taka þátt í svona tálbeituaðgerðum,“ segir Fjölnir Sæmundsson, formaður Landsambands lögreglumanna, í viðtali við DV, um aðgerðir svokallaðra tálbeituhópa sem oft samanstanda af mjög ungum karlmönnum. Talið er að 65 ára gamall maður frá Þorlákshöfn, sem lést eftir að hafa fundist þungt haldinn í Gufunesi, hafi verið fórnarlamb tálbeituhóps, eins og DV hefur greint frá.

Sjá einnig: Hinn látni var fórnarlamb þaulskipulagðrar tálbeituaðgerðar

Fjölnir segir fleiri mál er varða ofbeldi tálbeituhópa hafa komið til kasta lögreglu en þau tvö mál sem helst hafa verið í fjölmiðlum, árás á karlmann á Akranesi og síðan áðurnefnt mál í Gufunesi.

„Akranesmálið komst í fréttir vegna þess að sá maður var með svo mikla áverka. En þetta er það sem hefur verið varað við, að fólk sé að taka lögin í eigin hendur, það getur endað illa.“

Fjölnir segir að ungt fólk í tálbeituhópum hugsi málin ekki til enda. „Það á kannski ekki við um öll þessi mál en þetta eru oft ungir krakkar, ungir strákar, og ég held þau hugsi ekki alveg fram á hvað gerist ef þau ganga svo í skrokk á einhverjum að þau verða ákærð fyrir meiriháttar líkamsárás. Þú ætlaðir þér kannski einhverjar hótanir eða valda ótta eða eitthvað og svo þegar ofbeldið byrjar þá hefur það afleiðingar fyrir þig. Hvort sem þú ferð yfir strikið eða ekki þá er ólöglegt að ganga í skrokk á einhverjum.“

Fjölnir bendir á að ofbeldi getur svo hæglega farið úr böndunum. „Þú getur misst tökin á því. Það þarf ekki nema eitt högg eða eitt spark á rangað stað, eins og við höfum mörg dæmi um, það er bara eitt hnefahögg og dauði.“

Hann segir hættulega þróun að fólk taki lögin í eigin hendur og réttlæti eigið ofbeldi. „Ég veit að margir þessara ungu krakka hugsa með sér að þau megi gera þetta, þetta séu glæpamenn, það megi hefna sín á þeim fyrir samfélagið. En þau eru að stofna eigin framtíð í hættu. Þegar þú ert ungur þá hugsarðu kannski ekki mörg skref fram í tímann en þú getur verið að eyðileggja eigið líf með því að taka þátt í svona hóp. Þannig getur efnilegt ungt fólk rústað lífi sínu.“

Þekkt undirheimafólk að næla sér í peninga

Fjölnir telur að rannsóknarvinnu tálbeituhópanna sé mjög ábótavant. Þau viti oftast lítið eða ekkert um þá sem þau saka um að vera barnaníðinga. „Þau vita ekkert um manninn, þau eru bara að leggja út gildrur.“ Hann segir undarlegt til þess að vita að þekkt undirheimafólk hafi blandast inn í þessar tálbeituaðgerðir eins og virðist vera í Gufunesmálinu.

„Í þessu Gufunesmáli ertu allt í einu kominn með nafn á þekktum ofbeldismanni og öðru undirheimafólki. Þarna virðast glæpamenn vera að ná sér í pening. Þegar þekktir glæpamenn eru farnir að sjá gróðavon í þessu þá fer þetta að hætta að vera sú réttlætisbarátta sem þetta átti að vera.“

Fjölnir varar ungt fólk við því að taka þátt í tálbeituhópum og leggur þunga áherslu á það. „Ungt fólk getur eyðilagt líf sitt með því að taka lögin svona í eigin hendur. Ég vara mjög við því. Ég skil sem rannsóknarlögreglumaður að maður getur verið óþolinmóður yfir því hvað það tekur langan tíma að afla sönnunargagna og koma málum í gegn, en þannig virkar bara réttarríkið, það er það sem við höfum og lögreglan er alltaf að gera sitt allra besta til að bregðast við. En við þurfum sönnunargögn, við byggjum á því og þannig viljum við hafa samfélagið.“

Fjölnir segir að honum virðist það vera orðið meira samfélagslega viðurkennt hjá ungu fólki að beita ofbeldi. Hann hefur ekki skýringu á því en hefur miklar áhyggjur af þeirri þróun. „Maður sér unga krakka vera farna að beita miklu ofbeldi hvert gegn öðru,“ segir hann.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Vasaþjófaplága herjar á Ísland – „Skipulögð brotastarfsemi“

Vasaþjófaplága herjar á Ísland – „Skipulögð brotastarfsemi“
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Segir að verði að vera hægt að ræða vinnubrögð RÚV – „Þið eruð öll bara í ruglinu ef þið gagnrýnið okkur“

Segir að verði að vera hægt að ræða vinnubrögð RÚV – „Þið eruð öll bara í ruglinu ef þið gagnrýnið okkur“
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

„Sonur minn er ekki bara to do listi sem þarf að tikka í til að hægt sé að segja að lögum og reglum hafi verið fylgt“

„Sonur minn er ekki bara to do listi sem þarf að tikka í til að hægt sé að segja að lögum og reglum hafi verið fylgt“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Segir komið nóg af linkind stjórnvalda – „Tiltekt og fara út með ruslið (erlenda glæpamenn)“

Segir komið nóg af linkind stjórnvalda – „Tiltekt og fara út með ruslið (erlenda glæpamenn)“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Mannslátið í Garðabæ harmleikur velmegandi fjölskyldu

Mannslátið í Garðabæ harmleikur velmegandi fjölskyldu
Fréttir
Í gær

Mannslátið á föstudag – Málið sagt flókið og viðkvæmt

Mannslátið á föstudag – Málið sagt flókið og viðkvæmt
Fréttir
Í gær

Umdeildur skólastjóri hættir: Segist hafa orðið fyrir „persónulegu einelti“ í starfi

Umdeildur skólastjóri hættir: Segist hafa orðið fyrir „persónulegu einelti“ í starfi
Fréttir
Í gær

Íslendingurinn sem leitað var að í Danmörku er fundinn heill á húfi

Íslendingurinn sem leitað var að í Danmörku er fundinn heill á húfi
Fréttir
Í gær

Íslenskir feðgar í þyrlunni rétt áður en hún hrapaði í Hudson-ána – „Erfitt að átta sig 14 ára á nálægðinni við dauðann“

Íslenskir feðgar í þyrlunni rétt áður en hún hrapaði í Hudson-ána – „Erfitt að átta sig 14 ára á nálægðinni við dauðann“