Lögreglan á Suðurlandi tilkynnti nú rétt í þessu að hún hafi gert kröfu um gæsluvarðhald yfir sjöunda einstaklingnum vegna rannsóknar á manndrápi sem framið var í umdæmi hennar í síðustu viku en sex eru nú í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknarinnar. Hefur einnig verið farið fram á framlengingu á gæsluvarðhaldi yfir þremur af þessum einstaklingum.
Í tilkynningunni segir að rannsóknin snúi eftir sem áður að meintri fjárkúgun, frelsissviptingu og manndrápi. Sjöundi einstaklingurinn hafi verið handtekinn í gærkvöldi.
Rannsókn málsins miði vel og njóti lögreglustjórinn á Suðurlandi aðstoðar frá embættum ríkislögreglustjóra, lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og héraðssaksóknara.