Þrettán þingmenn ríkisstjórnarflokkanna vilja að Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra láti gera skýrslu til að kortleggja eignarhald 20 stærstu útgerðarfélaga landsins á íslensku atvinnulífi. Fyrir þremur árum birti Kristján Þór Júlíusson þáverandi ráðherra skýrslu sem talin var ófullnægjandi.
Dagur B. Eggertsson, þingmaður Samfylkingar, er fyrsti flutningsmaður að beiðni um skýrsluna. En tólf aðrir þingmenn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins standa einnig að henni.
Óskað er eftir skýrslu um eignarhald 20 stærstu útgerðarfélaga landsins og tengdra félaga í íslensku atvinnulífi. Meðal annars fjárfestingar útgerðanna og dótturfélaga þeirra í félögum sem hafa ekki með útgerð fiskiskipa að gera. Einnig að gert verði grein fyrir raunverulegum eigendum og fjárfestingum útgerðanna í öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum, til að sýna krosseignatengsl.
„Ljóst er að sterk fjárhagsstaða útgerðarfélaga byggist að umtalsverðu leyti á einkaleyfi þeirra til nýtingar sameiginlegrar auðlindar þjóðarinnar og skipar það þeim í sérflokk í íslensku atvinnulífi, sérstaklega stærstu félögunum. Tækniframfarir og samþjöppun fyrirtækja hafa enn fremur aukið arðsemi útgerðanna,“ segir í beiðninni.
Bókfært eigið fé að frádregnum skuldum sjávarútvegsfyrirtækja var komið upp í 449 milljarða króna í lok árs 2023 samkvæmt skýrslu Deloitte. Hafði eigið fé þá aukist um 152 milljarða á aðeins tveimur árum.
„Skýrar vísbendingar eru um að fjárfestingar tengdar fyrirtækjum í sjávarútvegi út fyrir greinina hafi aukist mjög í takt við aukinn hagnað af nýtingu auðlindarinnar. Það er jákvætt að því leyti að það dreifir áhættu félaganna sjálfra en getur hæglega leitt til verulegrar uppsöfnunar eigna og áhrifa á fárra hendur og dregið úr virkri samkeppni á mörkuðum. Vegna smæðar innanlandsmarkaða er íslenskt atvinnulíf sérstaklega viðkvæmt fyrir fákeppni,“ segir í beiðninni.
Sams konar skýrslubeiðni var samþykkt um áramótin 2021 og skilaði Kristján Þór Júlíusson, þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, skýrslunni af sér í ágústlok það ár. En það var einmitt Hanna Katrín Friðriksson, núverandi ráðherra, sem lagði beiðnina fram ásamt 17 þingmönnum stjórnarandstöðu og Vinstri grænna.
Fyrir utan að vera nokkrum mánuðum of sein þótti skýrslan ófullnægjandi og ekki í samræmi við það sem Alþingi hafði samþykkt.
Skýrslan sýndi engin krosseignatengsl eða ítök útgerðarfélaga í einstökum fyrirtækjum. Ekki voru birtar upplýsingar um raunverulegt eignarhald eigenda stærstu útgerðarfélaganna í fyrirtækjum sem ekki hafa með útgerð fiskiskip að gera. Sagði Hanna Katrín skýrsluna hlægilega.
Í skýrslunni var því haldið fram að persónuverndarlög hömluðu því að hægt væri að birta upplýsingar um raunverulega eigendur. Persónuvernd hafnaði þessu hins vegar og sendi bréf til ráðuneytisins til að leiðrétta þá rangfærslu.
20 stærstu útgerðarfélögin eru eftirfarandi samkvæmt hlutfalli af heildaraflamarki:
Brim hf – 9,91%
Samherji Ísland ehf – 8,93%
Ísfélag hf – 7,34%
FISK-Seafood ehf – 5,85%
Vísir hf – 4,04%
Skinney-Þinganes hf – 3,96%
Vinnslustöðin hf – 3,42%
Hraðfrystihúsið-Gunnvör hf – 3,19%
Útgerðarfélag Reykjavíkur hr – 2,94%
Nesfiskur ehf – 2,9%
Síldarvinnslan hf – 2,41%
Gjögur hf – 2,1%
Útgerðarfélag Grindavíkur ehf – 2,01%
Blika Seafood ehf – 1,86%
Jakob Valgeir ehf – 1,86%
Fiskkaup hf – 1,81%
Bergur-Huginn ehf – 1,72%
Loðnuvinnslan hf – 1,56%
Re27 ehf – 1,5%
Guðmundur Runólfsson hf – 1,44%