Samúel Jón Samúelsson er landskunnur fyrir aðkomu sína að tónlistarlífi landsins, sem hljóðfæraleikari, útsetjari eða meðhöfundur, og tónlistarstjórn við sjónvarpsþáttagerð, leikhús, kvikmyndir, auglýsingar, þáttagerð á Rás 1 og sem plötusnúður.
Samúel Jón er einnig kennari við Menntaskólann í tónlist (MÍT). Segir hann skólann á allt of mörgum stöðum, kennslan fari fram í Rauðagerði og í SKipholti og nemendur stundi svo bóklegt nám við Menntaskólann við Hamrahlíð (MH).
Er Samúel Jón því með afbragðs hugmynd sem lausn á húsnæði skólans, sem hann deilir á Facebook.
„Helst vildi ég að ríkið byggði nýtt sérhannað húsnæði fyrir skólann. Unga fólkið okkar á að búa við bestu aðstæður. En þar sem slíkt virðist ekki í kortunum langar mig að kasta fram hugmynd. Byggja sérhannaða samtengda álmu fyrir alla tónlistarkennsluna á lóð MH. Þá nýtist bókkennslu húsið og hátíðarsalurinn og krakkarnir geta stundað námið á einum stað.“
Birtir Samúel Jón síðan mynd með hugmynd sinni þar sem fyrirhuguð álma gæti verið.