fbpx
Þriðjudagur 18.mars 2025
Fréttir

Stefán Einar hjólar í Sigmar vegna ummæla hans um byrlunarmálið – „Varðhundur Ríkisútvarpsins er gerður út af örkinni“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 17. mars 2025 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vilhjálmur Árnason, þingmaður og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, greindi frá því í vikunni að nefndinni hefði borist erindi frá lögmanni Páls Steingrímssonar skipstjóra, þar sem farið er fram á að skipuð verði sérstök rannsóknarnefnd til að skoða aðkomu RÚV að byrlunarmálinu svokallaða.

Málið snýst meðal annars um fullyrðingar þess efnis að starfsmenn RÚV hafi tekið við síma Páls sem var stolið í kjölfar þess að honum var byrlað, látið afrita gögn af símanum og komið gögnunum í hendur blaðamönnum á Stundinni og Kjarnanum.

Rannsókn málsins lauk án ákæru en Vilhjálmur hefur látið hafa eftir sér að rannsókn hafi ekki verið felld niður vegna skorts á líkum á sakfellingu heldur vegna þess að lögreglu hafi ekki tekist að upplýsa málið.

Sigmar Guðmundsson, þingflokksformaður Viðreisnar, sakar Vilhjálm um að tala óvarlega í málinu. Í aðsendri grein á Vísir.is varar Sigmar við því að Alþingi taki upp á því að rannsaka fréttaflutnig fjölmiðla. Sigmar skrifar:

„Í þessu mál þarf stjórnskipunar og eftirlitsnefnd að vanda sig sérstaklega vel. Í henni sitja stjórnmálamenn og í alvöru lýðræðisríkjum tíðkast það ekki að stjórnmálamenn rannsaki fréttaflutning fjölmiðla, grennslist fyrir um heimildarmenn þeirra eða yfirheyri fréttamenn um vinnubrögð. Samkvæmt lögum þarf stjórnskipunar og eftirlitsnefnd að fara í talsverða undirbúningsvinnu til að ákveða hvort stofna skuli rannsóknarnefndina og vandséð er að það verði gert öðru vísi en með því að kalla fjölmiðlana ásamt fleiri gestum fyrir þingnefndina. Það var í það minnsta ferlið á síðasta kjörtímabili þegar skipuð var rannsóknarnefnd vegna snjóflóðanna í Súðavík.

Með öðrum orðum, í þessu tilfelli er það pólitísk ákvörðun að láta rannsaka tilteknar fréttir, vinnubrögð, samstarf og notkun fjölmiðla á gögnum og heimildum og samskipti þeirra við heimildarmenn. Í því ljósi vona ég að nefndin hafi í huga að það er ástæða fyrir því í lýðræðisríkjum að reynt er að koma upp eldveggjum á milli fjölmiðla og stjórnmála. Fjölmiðlar njóta sérstakrar verndar í lögum og það er ástæða fyrir því. Þeir eiga að vera sjálfstæðir og óháðir stjórnvöldum.“

Sigmar bendir á að lögregla hafi þegar rannsakað málið, bæði vel og lengi. Niðurstaðan hafi verið sú að ekki þótti ástæða til ákæru. Segir Sigmar að stjórnmálamenn eigi ekki að vefengja niðurstöður lögreglurannsókna.

RÚV og þjófstolin raftæki

Stefán Einar Stefánsson, hinn þekkti blaðamaður og hlaðvarpsstjóri á Morgunblaðinu, kallar Sigmar varðhund RÚV í pistli sem hann birtir um málið á Facebook. Hann segir sjálfsagt að Alþingi rannsaki vinnubrögð RÚV í málinu. Spyr hann Sigmar hvort honum þyki virkilega vera í lagi að fjölmiðlar taki við þjófstolnum raftækjum, afriti þau, gramsi í gögnum og sendi þau áfram:

„Varðhundur Ríkisútvarpsins er gerður út af örkinni um leið og hreyft er umræðu um hvort skoða megi vinnubrögð RÚV.

Auðvitað er ekkert nema sjálfsagt að Alþingi Íslendinga láti skoða vinnubrögð stofnunarinnar sem orðið hefur uppvís að vinnubrögðum sem eru óverjandi og ógn við friðhelgi fólks, ekki aðeins þeirra sem stofnunin telur til „andstæðinga“ sinna heldur allra þeirra sem lent geta í þeirri ömurlegu, og nær vonlausu stöðu.

Af hverju ætli Alþingismenn tipli alltaf á tánum þegar kemur að RÚV? Af hverju er stofnunin tekin út fyrir sviga þegar rætt er um hagræðingu?

Jú, skýringin er einföld, fyrir utan tilfelli Sigmars sem er bara gamall haukur í horni í Efstasleiti og á stofuninni margt að þakka. Stjórnmálamenn þora ekki að egna til illinda við RÚV. Þá fyrst lenda þeir í skotlínunni þar sem engu er eirt.

Í lok dags þurfa svo auðvitað stjórnmálamenn og fyrrum fréttamenn eins og Sigmar að svara því hvort þeir séu í alvörunni á þeirri skoðun hvort RÚV og aðrir fjölmiðlar megi taka við þjófstolnum raftækjum fólks út í bæ, afrita þau, gramsa í gögnum sem þar er að finna og jafnvel fleyta þeim svo áfram í hendurnar á einhverju liði út í bæ?

Er hann í alvörunni á þeirri skoðun?!“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Átti rétt á að rifta leigusamningi eftir að lögregla hafði gert húsleit á veitingastaðnum

Átti rétt á að rifta leigusamningi eftir að lögregla hafði gert húsleit á veitingastaðnum
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Vilja koma í veg fyrir að hörmungarnar í október endurtaki sig

Vilja koma í veg fyrir að hörmungarnar í október endurtaki sig
Fréttir
Í gær

Undarlegar „íslenskar“ matreiðslubækur til sölu á erlendum vefsíðum – „Græn matur“ eftir Álfhildi Blómlyftu og aðrir undarlegir titlar

Undarlegar „íslenskar“ matreiðslubækur til sölu á erlendum vefsíðum – „Græn matur“ eftir Álfhildi Blómlyftu og aðrir undarlegir titlar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Manndrápsmálið: Hinn látni var fórnarlamb þaulskipulagðrar tálbeituaðgerðar

Manndrápsmálið: Hinn látni var fórnarlamb þaulskipulagðrar tálbeituaðgerðar